Kögun hf. hefur samþykkt að kaupa 50,1% af heildarhlutafé norska hugbúnaðarfyrirtækisins Hands ASA, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Hands er skráð í norsku kauphöllinni og tilboð Kögunar hljóðar upp á 1,2 norskar krónur á hlut, sem er 23,7% hærra yfir síðasta skráða gengi félagsins sem jafnframt er meðalgengi síðustu þriggja mánaða.

Heildarkaupverðið er því 1,6 milljarðar íslenskra króna en Kögun hefur gert tilboð til annarra hlutafa félagsins, segir í tilkynningunni.

?Kaupin á Hands ASA eru í samræmi við stefnu Kögunar hf. um að stækka enn frekar á sviði viðskiptalausna en önnur fyrirtæki í samstæðunni sem bjóða lausnir á þessu sviði eru fyrir eru Ax hugbúnaðarhús hf., Hugur hf., Landsteinar Strengur hf., Aston Baltic SIA og Skýrr hf.," segir í tilkynningu Kögunar.

Hands sérhæfir sig í viðskiptalausnum á norskum hugbúnaðarmarkaði og er með um 35-40% markaðshlutdeild á sviði Microsoft Business Solutions lausna og þar af leiðandi stærsti samstarfsaðili Microsoft á því sviði í Noregi, segir í tilkynningunni. Fyrirtækið hefur styrkt stöðu sína umtalsvert á þessu ári með kaupum á fyrirtækjunum Completo AS, sem hefur sérhæft sig í lausnum fyrir lögfræði- og ráðgjafafyrirtæki, og með kaupum á Nett 2 3 AS, sem hefur sérhæft sig í lausnum fyrir flutningafyrirtæki ásamt hýsingarlausnum fyrir viðskiptavini sína.

Velta Hands á árinu 2005 er áætluð um 140 milljónir norskar krónur og gert er ráð fyrir að EBITDA hlutfall verði um 10%. Velta Hands á næsta ári er áætluð um 190 milljónir norskar krónur eða um 1,8 milljarðar íslenskra króna. Viðskiptavinir Hands eru í dag um 600 um allan Noreg og starfrækir félagið skrifstofur í Osló, Bergen, Stavanger og Sandefjord.

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka á Íslandi og í Noregi annast skammtímafjármögnun og ráðgjöf vegna yfirtökunnar og lögfræðiráðgjöf annaðist Wiersholm, Mellbye & Beck í Osló.