Í ítarlegu viðtali við Gunnlaug M. Sigmundsson, forstjóra Kögunar, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að fyrr á árinu reyndi Kögun að kaupa í það minnsta tvö erlend fyrirtæki og staðfesti Gunnlaugur að annað þeirra hefði verið Columbus IT í Danmörku. Miklum tíma hefði verið eytt í viðræður við þá og stóðu viðræðurnar frá apríl þar til í júnílok þegar þeir Kögunarmenn ákváðu að slíta þeim. Nordea bank á nærri því 40% í fyrirtækinu og hefur haft áhuga á því að losa sig úr þeirri stóru stöðu.

Félagið er Íslendingum ekki ókunnugt því bæði Opin kerfi og Skýrr hafa fjárfest í því með heldur döprum árangri. Þau eiga enn lítinn hlut í félaginu. Gunnlaugur sagði að það hræddi þá ekki, þeir hefðu talið að mikið tækifæri fælist í Columbus IT sem velti um 20 milljörðum og er með um 900 starfsmenn í 26 löndum. "Við hefðum getað náð saman um verð en við og stjórnendur fyrirtækisins og annar stærsti eigandi þess vorum ekki samstiga um hvaða aðferir ætti að nota til þess að láta fyrirtækið skila hagnaði hratt. Þeir vildu fara sóknarleiðina í veltu en við vildum fara sömu leið og á Íslandi og vaxa ekki meira fyrr en við næðum ásættanlegum hagnaði út úr þeirri veltu sem fyrirtækið hefði," segir Gunnlaugur í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í morgun.