Einkafjárfestingarsjóðurinn Kohlberg, Kravis, Roberts & Co (KKR) hefur ákveðið að fara í opinbert hlutafjárútboð, sem gæti haft mikil áhrif á Wall Street vegna þessarar auknu samkeppni við stærstu bankana sem þar eru fyrir, að því er fram kemur í bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal.

Þetta 31 árs gamla fyrirtæki sækist eftir 1,25 milljörðum Bandaríkjadala, sem opnar möguleika annarra á því að komast inn í félög sem hafa ítök í fyrirtækjum sem eru meira en 100 milljarða dala virði, með um samtals 560 þúsund starfsmenn. Félagið mun fá nýtt nafn og heita KKS & Co LP.

Þó fyrirtækið hafi ekki verið fyrirferðamikið, hafa samkeppnisaðilar eins og Blackstone Group verið að þrýsta á um að KKS færi á markað, eins og Blackstone gerði nýlega.

KKR ætti með hlutafjárútboðinu að geta, líkt og Blackstone gerði á sínum tíma, laðað að toppstjórnendur með möguleikum á kaupréttum á hlutabréfum, en einnig er þetta tækifæri fyrir tvo stærstu hlutafana, Henry Kravis og George Roberts, til að losa um fjármagn. Hins vegar hafa þeir sagst ekki hafa nein áform um að selja hluti sína, líkt og eigendur Blackstone gerðu; þeir ætla fremur að einbeita sér að því að selja vaxtaráætlun fyrirtækisins með því að víkka starfsemina og bjóða viðskiptavinum upp á umfangsmikla eignastýringu undir KKS nafninu.

KKR hefur aukið eignir sínar gríðarlega undanfarin ár, úr 18,3 milljörðum dala í árslok 2002 í 53,4 milljarða dala í dag, sem er þó mun minna en Blackstone sem hefur yfir um 88 milljörðum dala að ráða.