Y-kynslóðin svokallaða álítur að Coca Cola sé svalasta vörumerkið í flokki gosdrykkja. Í öðru sæti er Egils appelsín og er Pepsi í þriðja sætinu. Þetta eru niðurstöðu könnunar sem markaðsrannsóknarfyrirtækið MMR gerði nýverið í hópi fólks sem telst til Y-kynslóðarinnar svokölluðu. Þetta er fólk á aldrinum 16-30 ára. Fram kemur í tilkynningu um niðurstöður MMR að flestum þeim sem þótti Pepsi eða Egils-Appelsín vera svöl vörumerki álitu Coke einnig vera svalt. Annað hvort þótti aðspurðum Coke vera svalt vörumerki eða að þeim þóttu gosdrykkir hreinlega ekki svalir. Af þeim sem þátt tóku í könnuninni þótti 43% Coke Cola svalt vörumerki.

Önnur vörumerki sem þóttu svölust í sínum flokki eru Össur (tæknifyrirtæki), Timberland (fatnaður og skór), Icelandair (ferðaþjónusta), Snapchat (netþjónusta), iPhone (farsímar), Nova (símafyrirtæki), Apple (tölvur), Nike (íþróttavörur) og 66°N (útivistarfatnaður).  66°N var síðan það vörumerki sem flestum af yngri kynslóðinni þykir mikið til koma. Svo virðist sem að gamalgróin vörumerki eigi upp á pallborðið hjá Y-kynslóðinni en Coca-Cola kom fyrst á markað árið 1886.

Í tilkynningu um niðurstöður könnunarinnar segir að athygli vakti að á listann komust engir bankar, bílaframleiðendur, matvörumerki, veitingastaðir, sælgæti eða verslanir. Margir framleiðendur í þessum greinum eyða þó miklum fjárhæðum til að ná til ungs fólks.

Könnunin var gerð í tengslum við ráðstefnuna „How cool brands stay hot“  sem fram fór í Háskólabíói á föstudaginn en höfundar samnefndrar bókar, þeir Joeri Van den Bergh og Mattias Behrer, héldu erindi á ráðstefnunni. Vífilfell bauð lykilviðskiptavinum sínum á sérstakan fyrirlestur um vörumerkið Coke á KEX hostel á miðvikudag þar Van den Bergh greindi nokkrar vel heppnaðar auglýsingaherferðir Coke.

Um rannsókn MMR: Forkönnun var gerð á netinu í febrúar 2014 á meðal 547 þátttakenda. Tilgangurinn var að safna tilnefningum um svölustu innlendu sem erlendu vörumerkin á Íslandi. Niðurstöður forkönnunarinnar voru notaðar til að búa til spurningalista fyrir meginkönnunina. Sú var framkvæmd á netinu í mars 2014 á meðal 581 þátttakenda. Spurt var hvað það þýddi að vera svalur eða svöl og hvaða staðir og einstaklingar væru svalastir að mati Y-kynslóðarinnar.