Coca-Cola European Partners Ísland ehf. (Coca-Cola á Íslandi) og vatnsframleiðandinn Icelandic Glacial í Ölfusi hafa tekið höndum saman um að auka dreifingu vörunnar á íslenskum markaði.  Coca-Cola European Partners mun annast sölu og dreifingu á vörum frá Icelandic Glacial hér á landi samhliða öðrum vörutegundum sínum.

Icelandic Glacial er basískt lindarvatn og er framleitt við vatnsbólið að Hlíðarenda í Ölfusi.

„Við erum mjög spennt fyrir því að vinna með CCEP,“ er haft eftir Jóni Ólafssyni, einum stofnenda Icelandic Glacial og stjórnarformanni fyrirtækisins. „Við höfum hingað til einbeitt okkur að vexti Icelandic Glacial á alþjóðavettvangi, en erum sérlega ánægð að geta nú náð betri fótfestu á heimaslóðum.“

„Með auknum fjölda ferðamanna á Íslandi sjáum við mikil tækifæri í því að bæta við hágæða lindarvatni við vörulínuna okkar og ná því að þjóna viðskiptavinum okkar enn betur og auka vöruúrval, ekki síst í hótel- og veitingageiranum og á ferðamannasvæðum.,“ er einnig haft eftir Carlos Cruz, framkvæmdastjóra Coca-Cola á Íslandi. „Við erum líka stolt af því að bæta kolefnishlutlausu vörumerki við vörulínuna okkar en það er í fulkomnu samræmi við sjálfbærniáætlunina okkar, Áfram veginn.“

Icelandic Glacial er nú selt í 24 löndum um allan heim.