Coca-Cola hefur fjarlægt vörumerki sitt af gosdósum sínum í Mið Austurlöndum og er tilgangurinn að hvetja fólk til að dæma ekki hvort annað.

Kókdósir verða án hins fræga Coke vörumerkis þar til Ramadan mánuðinum lýkur. Á annarri hliðinni er enginn texti en á hinum stendur: „Merki eru fyrir dósir, ekki fólk“.

Það voru FP7 og Memac Ogilvy sem hönnuðu þessa auglýsingaherferð. Hún hófst á lítilli stuttmynd sem sýnir fólk sem hefur verið boðið í matarboð í myrkri. Þar ræða allir um hin ýmsu mál og í ljós kemur að þeir eiga ýmislegt sameiginlegt. Þegar ljósin eru kveikt kemur í ljós að þetta er afar fjölbreyttur hópur.

Coca Cola segir í yfirlýsingu að á þessum tímum sé mikið lagt upp úr jafnrétti og að fordómum sé útrýmt. Fyrirtækið hafi viljað taka þátt í þeirri umbreytingu. Eitt af stærstu vörumerkjum heims hafi fjarlægt eigin vörumerki til þess að reyna að útrýma stereótýpum og fordómum.