Hús Rammagerðarinnar við Hafnarstræti er nú loks að komast aftur í ljós eftir tveggja ára framkvæmdir en eigendurnir stefna einnig að því að endurnýja gamla húsið þar á móti.

Í húsinu þar sem Rammagerðin var áður til húsa við Hafnarstræti 19, ásamt húsinu við Hafnarstræti 17 þar við hliðina, verður 50 herbergja hótel á vegum Icelandair hótel opnað í haust.

Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar og Suðurhúsa, sem eiga húsin auk gamla hússins við Hafnarstræti 18 þar beint á móti, segir að Rammagerðarhúsið verði áfram í sama gamla fallega stílnum sem fólk man eftir.

Nýtt hótel í miðbænum

„Húsið allt, sem með hótelinu og gamla Rammagerðarplássinu er um 700 fermetrar að stærð, verður með sömu hönnun alveg út að pulsuvagninum,“ segir Guðmundur en spennistöð sem er þar við endann mun víkja.

„Þetta er gamla húsið sem Rammagerðin var í, Hafnarstræti 17, sem er við hliðina á því, og svo er búið að byggja við nýtt hús, þar sem leigubílastöðin var þar fyrir aftan. Svo verður allt torgið þar gert upp á mjög skemmtilegan hátt.“

Guðmundur er spenntur fyrir möguleikum svæðisins þegar göngugata frá Hafnartorginu verður opnuð en hún er hugsuð sem endurnýjun á gömlu Kolabrautinni sem hægt er að sjá á gömlum myndum og lá þvert á Austurstrætið.

„Samkvæmt nýja skipulaginu sem Reykjavíkurborg er að gera þá verður gönguleið í gegnum Hafnartorgið og fram hjá boganum á húsinu við Hafnarstræti í gegnum allan miðbæinn alveg niður að Tjörn, en þessi endi Hafnarstrætisins verður göngugata frá Kolasundinu,“ segir Guðmundur en áður fyrr var hægt að ganga á milli Hafnarstrætis 18 og 16 í gegnum Kolasundið inn í Austurstræti.

„Þeir ætla að endurnýja þennan enda Hafnarstrætisins í vor. Þá verður komin skemmtileg ásýnd á þennan enda Hafnarstrætisins.“

Guðmundur segir að í bæði hornhúsinu við Tryggvagötu og Hafnarstræti, sem er númer 19 á Hafnarstrætinu þar sem Rammagerðin var lengi með verslun, og Hafnarstræti 18, verði mjög skemmtileg verslunarpláss.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .