Kolbeinn Árnason lögmaður hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og hefur störf í næsta mánuði. Var starfsfólki tilkynnt um ráðninguna í dag.

Friðrik J. Arngrímsson hefur verið framkvæmdastjóri LÍÚ síðastliðin þrettán og hálft ár og greindi frá því í apríl að hann ætlaði að hætta störfum. Staðan var auglýst laus til umsóknar í enda maí og voru umsækjendur 38 talsins.

Í fréttatilkynningu frá LÍÚ kemur lítið fram um fyrri störf Kolbeins. Á kynningarsíðu um framgang viðræðna Íslendinga vegna inngöngu í ESB kemur fram að hann var formaður samningahóps um sjávarútvegsmál. Þar er jafnframt að finna eftirfarandi lista yfir fyrri störf Kolbeins.

  • Skilanefnd Kaupþings Banka hf., framkvæmdastjóri lögfræðisviðs frá 2008.
  • Kaupþing Banki hf., lögfræðingur á lögfræðisviði, 2007-2008.
  • Sjávarútvegsráðuneytið, skrifstofustjóri á fiskveiðistjórnunarsviði, 2007.
  • LOGOS lögmannsþjónusta, 2006-2007.
  • Sendiráð Íslands í Brussel, fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins, 2005-2006.
  • Sjávarútvegsráðuneytið, skrifstofustjóri á alþjóðaskrifstofu, 2000-2006.
  • Sjávarútvegsráðuneytið, deildarstjóri á alþjóðaskrifstofu, 1999-2000.
  • Formaður samninganefndar Íslands um veiðiheimildir úr kolmunnastofninum í N-Atlantshafi, úthafskarfa á Reykjaneshrygg, 1999-2005.
  • Fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins í samninganefnd Íslands um norsk-íslenska síldarstofninn, 1999-2005.
  • Formaður sendinefndar Íslands á fundum NEAFC, Norðaustur Atlantshafs Fiskveiðstofnunarinnar sem hefur með höndum stjórn veiða á síld, kolmunna, karfa, makríl og annarra tegunda á Norðaustur Atlantshafi, 2001-2005.
  • Formaður sendinefndar Íslands á fundum NAFO, Norðvestur Atlantshafs Fiskveiðinefndarinnar, sem hefur m.a. með höndum stjórn veiða úr stofni úthafsrækju á flæmska hattinum, 2001-2006.
  • Formaður sendinefndar Íslands á fundum Fiskveiðinefndar FAO (COFI), 2000-2005.