Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður og leiðarahöfundur á Fréttablaðinu, hefur sagt upp störfum hjá 365 og hættir um næstu mánaðarmót. Kjarninn greinir frá þessu.

Kolbeinn segir í samtali við Kjarnann að ástæðan fyrir uppsögninni sé sprotafyrirtækið Tuk Tuk Tours sem hann stofnaði fyrir skömmu ásamt öðrum. Segir hann starf blaðamanns og rekstur fyrirtæksins, sem bæði krefjist mikils tíma, ekki fara saman.

Viðskiptablaðið greindi frá stofnun fyrirtækisins í lok síðasta árs , en um er að ræða ferðaþjónustufyrirtæki þar sem ferðamönnum er boðið að ferðast um stræti Reykjavíkur á svonefndum Tuk Tuk farartækjum.

„Þetta eru rafmagnsþríhjól sem taka sex farþega. Hjólin eru framleidd í Hollandi og eru því með Evrópusambandsstimplinum, sem þýðir að þau eru lögleg á götum landa sambandsins og hér á Íslandi. Hjólin eru með öryggisbeltum, hita í sætum og það er hægt að loka farþegarýminu,“ sagði Kolbeinn í samtali við Viðskiptablaðið þá.