„Það skiptir gríðarlegu máli ef þú ætlar að vinna fyrir hagsmunasamtök eins og LÍÚ að skilja rekstur og hvatann að baki rekstri fyrirtækja,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann hefur aldrei migið í saltan sjó, þ.e. í þeirri merkingu að hann hefur aldrei unnið á sjó.

Þegar Kolbeinn Árnason hóf störf hjá LÍÚ hafði hann starfað um margra ára bil við stjórnsýslustörf sem tengjast sjávarútveginum. Hann hafði unnið í dómsmálaráðuneytinu, sjávarútvegsráðuneytinu og aðstoðað Karl Axelsson hæstaréttarlögmann í málarekstri fyrir ríkið í málum sem tengdust stjórnskipunarlegri vernd aflaheimilda, meðal annars í svokölluðu Vatnseyrarmáli. Sem starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins sá Kolbeinn um alþjóðamál og að einhverju leyti um mál sem tengjast fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hann var meðal annars starfsmaður nefndar sem hafði það verkefni að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið um aldamótin 2000. Hann fór síðan til Brussel og vann þar fyrir sjávarútvegsráðuneytið. Eftir það fór hann svo að vinna óskyld störf á lögmannsstofu. Sjómennskuna hefur hins vegar vantað:

„Þannig að...ef það vantar einhvern mann í sumar þá auglýsi ég eftir plássi,“ segir Kolbeinn og hlær. „Í alvöru talað þá held ég að það væri mjög hollt fyrir mann að prófa þetta.“ segir hann.

Rætt er ítarlega við Kolbein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .