Kolbeinn Ísak Hilmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjarkönnunar- og nýsköpunarfyrirtækisins Svarma ehf. Kolbeinn tekur við af Tryggva Stefánssyni, stofnanda félagsins, sem mun taka við stöðu tæknistjóra og leiða tækniþróun félagsins.

Kolbeinn er atvinnuflugmaður og löggiltur fasteignasali og hefur undanfarin ár starfað sem flugmaður hjá Air Iceland Connect og WOW Air ásamt störfum við fasteigna- og fyrirtækjasölu, fjárfestatengsl og blindflugskennslu. Kolbeinn er einn stofnenda Yggdrasill Carbon ehf. og situr þar í stjórn.

„Að fá Kolbein til liðs við félagið er gríðarlegur styrkur og mun efla félagið til muna á sviði viðskiptaþróunar,“ segir Tryggvi.

„Samhliða því að félagið geti nú lagt aukinn kraft í viðskiptaþróun, gefst mér tækifæri til að efla tækniþróun félagsins sem ég hef brunnið fyrir allt frá stofnun þess. Þetta leiðir af sér að hægt verður að koma þeim tæknilausnum, sem félagið hefur verið að þróa undanfarin ár, fyrr á markað.“

Kolbeinn Ísak segir að starfsemi félagsins tengi saman hans helstu þekkingar- og áhugasvið, það er flug, tækni og
nýsköpun.

„Ég er því mjög spenntur fyrir þessu nýja hlutverki og hlakka til að leggja mitt af mörkum við uppbyggingu Svarma í nánu samstarfi við það öfluga fólk sem þar starfar,“ segir Kolbeinn Ísak

Frá stofnun félagsins árið 2013 hefur Svarmi starfað á sviði fjarkönnunar með drónum og gervihnöttum og unnið fjölbreytt verkefni á Íslandi og í Afríku. Félagið vinnur meðal annars að þróun nýrrar tækni sem mun umbylta öflun fjarkönnunargagna í rauntíma með fullkomlega sjálfvirkum drónum, með áherslu á afleidd jákvæð umhverfis- og samfélagsáhrif.