Kolbeinn Friðriksson, sem nýlega sagði starfi sínu lausu hjá Eik fasteignafélagi, hefur verið ráðinn fjármálastjóri hjá Höldi ehf., sem rekur Bílaleigu Akureyrar, og mun taka til starfa á næstu mánuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Kolbeinn hefur undanfarin tvö ár starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Eik, en þar áður starfaði hann hjá Íslandsbanka og Bakkavör Group.

Kolbeinn lauk M.Sc. gráðu í fjármálum frá Berlin School of Economics and Law árið 2011, B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2001. Auk þess er hann með próf í verðbréfaviðskiptum.