Kolbeinn Tumi Daðason hefur verið ráðinn fréttastjóri á fréttavefnum Vísi. Hann tekur við af Kristjáni Hjálmarssyni sem starfað hefur sem fréttastjóri frá því í byrjun júní síðastliðins.

Kristján var áður fréttastjóri á Fréttablaðinu, systurmiðli Vísis, og hafði starfað á ritstjórn Fréttablaðsins frá stofnun þess. Hann lét af störfum að eigin frumkvæði. „Eftir þrettán ár hjá Fréttablaðinu og Vísi, sem er þriðjungur af ævi minni, þá var kominn tími til að breyta til. Ég kveð vinnustaðinn og vinnufélagana með miklum söknuði en ætla að hlúa að fjölskyldunni til að byrja með. Það kemur bara í ljós hvað tekur við,“ segir Kristján, spurður út í starfslokin. Hann hefur þegar látið af störfum.

Kolbeinn Tumi Daðason er verkfræðingur að mennt og að auki með meistarapróf í blaðamennsku frá Háskóla Íslands. Ritstjóri fréttastofu 365 miðla, og um leið Vísis, er Mikael Torfason.