*

þriðjudagur, 21. september 2021
Fólk 13. október 2020 14:00

Kolbrún Dröfn nýr sölustjóri

Billboard og Buzz hafa ráðið Kolbrúnu Dröfn Ragnarsdóttur sem sölustjóra fyrir útimiðla sína. Var hjá DV og Morgunblaðinu.

Ritstjórn
Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir nýráðinn sölustjóri hjá Billboard og Buzz starfaði áður við markaðsráðgjöf hjá DV og þar áður Morgunblaðinu í 13 ár.
Aðsend mynd

Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir hefur gengið til liðs við Billboard/Buzz sem sölustjóri og hóf hún störf 1. október síðastliðinn.

Kolbrún kemur við hlið Jóns Ásgeirs Gestssonar sem hefur verið sölustjóri undanfarin tvö ár í breyttu skipulagi þar sem nú verða tvær söludeildir innan miðla Billboard/Buzz.

Áður hafði Kolbrún verið sölustjóri hjá DV fyrir sameiningu við Torg og þar áður í 13 ár hjá auglýsingamiðlum tengdum Morgunblaðinu. Einnig hefur hún unnið við leiðsögn og rak saumastofu samhliða námi.

Kolbrún er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands, stundaði viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og lauk námi við leiðsöguskóla MK. Kolbrún er í sambúð með Hannesi A. Hannessyni og er móðir Birnu Rósar og Ýmis Arnars og á fjögur stjúpbörn, Hákon, Vilhjálm, Mikael og Hörpu. Hundurinn Dimma býr á heimilinu líka.

Billboard og Buzz standa að úti- og umhverfismiðlun ýmis konar, sem eiga að gera fyrirtækjum kleift að að ná til höfuðborgarbúa með áhrifaríkum hætti og þannig stýrt orðinu á götunni. Fyrir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins fóru 98% höfuðborgarbúa út í umferðina á hverjum einasta degi.

Hjá Billboard eru 18 stórir LED skjáir þar sem áður voru flettiskilti og 12 skjáir á teikniborðinu fyrir næsta ár. Hjá Buzz er búið að setja upp 250 LED skjái í biðskýli strætisvagna í Reykjavík, Hafnarfirði og Mosfellsbæ og verið að undirbúa uppsetningar í Garðabæ.

Félögin eru einnig með klassíkt plakata skýli sem eru með 350 auglýsingaflötum í öllum bæjarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 15 flettiskilti á suðvesturhorninu. Kolbrún segist sjá mikil tækifæri í útimiðlum Billboard / Buzz.

„Útimiðlar taka við af prenti sem sá miðill sem hefur mestu þyngd í dekkun innan dagsins á íslenskum auglýsingamarkaði. Uppbygging vörumerkjavitundar er nauðsynlegur hluti markaðsstarfs hvers fyrirtækis og með minnkandi blaðalestri eru útimiðlar orðnir enn mikilvægari þáttur í þessari uppbyggingu,“ segir Kolbrún sem segir útimiðla bjóða upp á möguleika sem ekki sé hægt að ná fram í öðrum miðlum.

„Hægt er að sníða auglýsingarnar að mismunandi hverfum og markhópum og vera með margvísleg skilaboði innan dags. Útimiðlar hafa alltaf verið mikilvægir í markaðsstarfi stórra vörumerkja erlendis og eru núna orðnir raunverulegur valkostur fyrir íslensk fyrirtæki.“