Kolbrún Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandshótela.

„Gríðarlegur vöxtur hefur verið hjá Íslandshótelum sem á og rekur 17 hótel með yfir 1.700 gistirými út um allt land auk funda- og ráðstefnuaðstöðu. Kolbrún er alkunn fyrirtækinu en hún hefur setið í stjórn Íslandshótela frá árinu 2015,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Árið 1987 útskrifaðist Kolbrún sem Cand Oecon frá Háskóla Íslands og lauk síðar Excecutive Education frá Kenan-Flagler Business School árið 2000. Hún stóðst hæfnismat FME í janúar 2011 og árið 2012 hlaut Kolbrún löggildingu sem verðbréfamiðlari. Kolbrún er einnig menntaður leiðsögumaður frá EHÍ.

Kolbrún hefur meðal annars starfað sem fjármálastjóri Húsasmiðjunnar í 7 ár eða frá 1989 til 1996. Kolbrún starfaði einnig sem útibússtjóri, forstöðumaður bakvinnslu og sem verkefnastjóri hjá Íslandsbanka (Glitni) á árunum 1996 til 2008 og sat síðan í stjórn bankans.

Kolbrún hefur einnig setið í stjórn Húsasmiðjunnar, Fastus, Senu og nú síðast í stjórn Íslandshótela, eins og áður kom fram. Að auki hefur hún unnið að fjölmörgum verkefnum, félags- og stjórnunarstörfum. Kolbrún er gift Páli Hilmarssyni, framkvæmdastjóra hjá Innnes og eiga þau tvö börn.

Haft er eftir Kolbrúnu í fréttatilkynningunni að hún hlakkar til að takast á við ný og spennandi verkefni hjá Íslandshótelum. „Eins og allir þekkja þá er ferðaþjónustan ört vaxandi atvinnugrein og á örskömmum tíma hefur hún orðið meginstoð í íslensku atvinnulífi. Íslandshótel er eitt af stærstu félögum hér á landi og rekur í dag 17 hótel og fasteignir hringinn í kringum landið, það er því ánægjulegt að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu hjá félaginu með því frábæra starfsfólki sem þar starfar,“ segir Kolbrún í tilkynningunni.