Kolbrún Halldórsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri fyrir forsætisráðuneytið í tengslum við hátíðahöld þann 1. desember næstkomandi vegna 100 ára fullveldis Íslands. Þá hefur Halla Gunnarsdóttir verið ráðin ráðgjafi forsætisráðherra, en Halla mun leiða starf stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.

Kolbrún Halldórsdóttir var umhverfisráðherra fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrri hluta árs 2009. Kolbrún var kjörin á þing fyrir Vinstri græna árið 1999 og átti sæti á Alþingi í áratug. Síðastliðin átta ár hefur hún gegnt embætti forseta Bandalags íslenskra listamanna.

Kolbrún brautskráðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978 og hefur síðan lokið viðbótardiplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Lengst af hefur Kolbrún starfað sem leikstjóri og sett á svið fjölda leiksýninga, meðal annars fyrir Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna.

Halla Gunnarsdóttir starfaði áður sem skrifstofustjóri hjá breska Kvennalistanum (The Women's Equality Party) þar sem hún leiddi stefnumótun samtakanna. Þá starfaði Halla á alþjóðlegri lögmannsstofu í Lundúnum, McAllister-Olivarius, sem sérhæfir sig í málum er lúta að kynbundnu áreitni á vinnustöðum, innan menntastofnana og á internetinu.

Á árunum 2009 til 2013 var Halla aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra, þar sem hún leiddi meðal annars samráð um meðferð nauðgunarmála. Halla er fyrrum blaðamaður og hefur verið virk í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi um langa hríð, þar á meðal á vettvangi Femínistafélags Íslands.