Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra stefnir að því að fá samþykkt á að Alþingi fyrir kosningar lagabálk um skipulags- og byggingarmál en í ráðuneytinu hefur verið unnið að heildarendurskoðun laganna í nokkur ár.

„Þetta er stórt mál sem þingið þekkir vel og unnið hefur verið að í umhverfisnefnd þingsins. Með góðum vilja ætti því að vera hægt að koma frumvarpinu í gegn," segir Kolbrún í samtali við Viðskiptablaðið.

Heildarendurskoðun skipulags -og byggingarlaga hófst í ráðherratíð Sivjar Friðleifsdóttur og er Kolbrún fimmti umhverfisráðherrann sem kemur að málinu. Þórunn Sveinbjarnardóttir lagði frumvarpið fram á Alþingi á síðasta ári, og fór það  til umfjöllunar í umhverfisnefnd þingsins.

Þaðan komst það aldrei út meðal annars vegna ágreinings um ákvæði frumvarpsins um nýtt skipulagsstig, svokallað landsskipulag. Það mætti harðri andstöðu sveitarstjórna víða um land og meðal þingmanna voru um það deildar meiningar, sérstaklega voru þingmenn Sjálfstæðisflokks gagnrýnir á málið.

Gagnrýnendur töldu m.a. að með landsskipulaginu væri verið að færa forræði sveitarfélaganna yfir skipulagsmálum til þingsins. Unnið var að sátt um málið m.a. við sjálfstæðismenn í ráðherratíð Þórunnar og lá niðurstaða fyrir þegar ríkisstjórnin sprakk í janúar.

Nú vill nýr umhverfisráðherra ná frumvarpinu í gegnum þingið. Kolbrún segir að búið sé að milda ákvæðið um landsskipulagið.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga ræddi málið í síðustu viku og komu þar fram efasemdir um gengið hefði verið nægilega langt í átt til þeirra sjónarmiða.

Nánar er fjallað um málið í viðtali við Kolbrúnu Halldórsdóttur í Viðskiptablaðinu.