Starfsemi aðila sem stuðla að bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu telst til óskilyrtra styrkja og þarf sökum þess ekki að standa skil á virðisaukaskatti vegna hennar. Þetta segir í ákvarðandi bréfi Skattsins sem nýverið var birt.

Í bréfinu segir að embættinu hafi borist fyrirspurn undir lok síðasta árs um það hvort slík starfsemi, sem getur til að mynda falist í endurheimt votlendis eða trjárækt, teljist virðisaukaskattskyld. Hluti starfseminnar væri einfaldlega styrkir og ekki bæri að greiða slíkan skatt af þeim en meiri vafi var um greiðslur frá félögum sem greiddu til slíkrar starfsemi til að losna við greiðslu gjalds fyrir umframlosun á gróðurhúsalofttegundum.

Í bréfi Skattsins sagði að slík viðskipti féllu, um stundarsakir að minnsta kosti, ekki undir viðskipti með losunarheimildir. Ekkert endurgjald væri því til staðar og því þyrfti ekki að greiða skattinn.