Á dögunum var frumkvöðlafjárfestirinn Monica Dodi stödd hér á landi á vegum Startup Reykjavík, með styrk frá Sendiráði Bandaríkjanna. Hún flutti nokkur erindi á mismunandi viðburðum, meðal annars á viðburði sem FKA, AMIS og Sendiráð Bandaríkjanna stóðu fyrir. Hún var einnig einn af aðalræðumönnum á fjárfestadegi Startup Reykjavík.

Monica er einn af stofnendum fjárfestingasjóðsins Women's Venture Capital Fund og er í dag framkvæmdastjóri sjóðsins. Sjóðurinn fjárfestir í frumkvöðlafyrirtækjum og leggur mikla áherslu á fjölbreytileika. Að hennar sögn hefur hún haldið svipuð erindi víða um Evrópu, en í erindum sínum fjalli hún meðal annars um jafnrétti og jákvæð áhrif þess á fjárfestingar og afkomu fyrirtækja.

„Mér var boðið til Íslands af Sendiráði Bandaríkjanna til að flytja nokkur erindi hér á landi. Ég hef farið víða um Evrópu í sama tilgangi og hef mjög gaman af þessu. Ég er menntuð í alþjóðahagfræði og einblíni því ekki síður á alþjóðamarkaðinn en þann innlenda. Mér þykir mjög skemmtilegt að heimsækja erlend lönd og halda erindi til þess að segja frá störfum mínum og veita innsýn í þennan heim frá sjónarhorni konu."

Sjálfsbjargarviðleitni einkennandi

Monica býr yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað hjá stórum fyrirtækjum víða um heim, til að mynda Walt Disney og MTV. Hún segir að það sem einkenni bakgrunn sinn sé áhersla á að tryggja sér og sínum lífsviðurværi.

„Foreldrar mínir lifðu seinni heimsstyrjöldina af, pabbi minn var á tímabili stríðsfangi og móðir mín var stödd í París þegar borgin var hertekin af Þjóðverjum. Þau þurftu því að ganga í gegnum ýmsa erfiðleika og þar af leiðandi er ákveðin sjálfsbjargarviðleitni sem einkennir mig og mitt uppeldi. Ég hef nýtt mér hana á nokkuð óhefðbundinn hátt, með því að reyna að koma auga á tækifæri sem aðrir láta framhjá sér fara.

Ég myndi segja að bakgrunnur minn og lífshlaup skiptist niður í þrjá kafla. Fyrsti kaflinn er það æviskeið sem átti sér stað áður en ég hóf atvinnuferilinn, sem sagt æskuárin. Ég ólst upp í Bandaríkjunum, er dóttir innflytjenda og á þeim tíma vorum við ekkert sérstaklega vel stæð. Á þessum árum er í góðu lagi að taka áhættur, þar sem þú hefur engu að tapa og þarft þar af leiðandi ekki að hafa neinar áhyggjur. Foreldrar mínir áttu síðar eftir að njóta velgengni þrátt fyrir að hafa byrjað með tvær hendur tómar og það hvatti mig til dáða. Þau hvöttu mig til að prófa það sem mig langaði til að gera, vinna baki brotnu og sækja mér góða menntun.

Annar kaflinn er þegar ég fór að taka þátt í frumkvöðlastarfsemi og kolféll fyrir því umhverfi. Ég menntaði mig í alþjóðahagfræði frá Georgetown háskóla og í kjölfar þess gafst mér tækifæri til að starfa við það að koma frumkvöðlafyrirtæki á laggirnar. Þetta frumkvöðlafyrirtæki hannaði verkfræðilega gagnagrunna fyrir miðlæg tölvukerfi. Þetta var árið 1977, en það vildi svo til að það ár var í fyrsta sinn hægt að sækja um einkaleyfi í Bandaríkjunum. Okkur gekk vel og seldum vöruna okkar út um allan heim og enduðum á að selja fyrirtækið.

Að því loknu fór ég í Viðskiptaháskóla Harvard í MBA nám. Ég fór þangað til þess að dýpka skilning minn á háþróuðum viðskiptum. Við vorum nokkuð heppin að njóta velgengni í frumkvöðlafyrirtækinu, þar sem við bjuggum til búnað sem flestir verkfræðingar í heiminum vildu nota, en fram að þessu hafði öll þeirra vinna farið fram á blaði."

Meðal stofnenda MTV í Evrópu

„Eftir útskrift frá Harvard bauðst mér tækifæri til að vera meðal stofnenda sjónvarpsstöðvar MTV í Evrópu. Ég flutti frá Bandaríkjunum til London til þess að stjórna viðskiptahlið MTV, sem fól meðal annars í sér að vera í samskiptum við rekstraraðila kapalkerfisins, auglýsendur, rétthafa og ýmis önnur lagaleg atriði. Einnig var það undir mér komið að ráða inn nýja starfsmenn. Þetta verkefni gekk mjög vel og til marks um það tókst okkur að koma rekstrinum réttu megin við núllið á innan við einu ári. Okkur tókst að breyta því hvernig fólk stundaði viðskipti á sjónvarpsmarkaðnum og vorum sú evrópska gervihnattarsjónvarpsstöð sem óx hraðast á þessum tíma. Þessi tími var mjög skemmtilegur og sömuleiðis frábær reynsla.

Næst fór ég yfir til Walt Disney í Evrópu, sem var einnig frábær reynsla, þar sem ég fékk þarna tækifæri til að vinna hjá risastóru fyrirtæki. Á þessum tíma var Disney að gefa út sígildar teiknimyndir eins og Litlu hafmeyjuna, Konung ljónanna og Fríðu og dýrið og það var mjög skemmtilegt að taka þátt í því. Í starfi mínu hjá Disney tók ég eftir því að leyfishafar fyrirtækisins voru að hagnast vel á því fjárhagslega. Því hóf ég rekstur eigin fyrirtækis í Frakklandi sem framleiddi Disney pappírsvörur. Mörg af stærstu verslunum í Evrópu seldu vörurnar okkar, meðal annars Boots og Carrefour. American Greetings, sem er stórt bandarískt fyrirtæki sem framleiðir tækifæriskort, keypti svo fyrirtækið af mér. Yfirtökur eiga sér yfirleitt stað vegna þess að fyrirtækið sem er tekið yfir hefur yfirráðasvæði, hæfileika eða tækni sem er eftirsóknarvert. Í mínu tilfelli keyptu þeir fyrirtækið mitt vegna yfirráðasvæðis, sem var í formi viðskiptatengsla við verslanir. Þar á eftir varð ég yfirmaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu AOL, sem var krefjandi starf sem krafðist þess að maður hugsaði út fyrir kassann," segir Monica.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .