Hátæknifyrirtækið Valka, sem býður upp á vörulínur fyrir hvítfisk- og laxavinnslu, og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hafa tekið upp samstarf. Sérfræðingar Kolibri í hugbúnaðarþróun og aðferðafræði munu starfa með sérfræðingum Völku næstu mánuði við framþróun á hugbúnaði Völku sem stýrir framleiðsluferli frá hráefni til tilbúinna afurða.

Valka starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum. Á síðasta ári gerði Valka samning við norska framleiðandann SalMar um kaup og uppsetningu á fullkomnu laxavinnslukerfi í nýrri InnovaNor verksmiðju SalMar í Lenvik. Kerfið er fullkomlega sjálfvirkt flokkunar- og dreifikerfi auk samþættingar við pökkunarkerfi. Hugbúnaður Völku stýrir öllu framleiðsluferlinu.

Reynsla Kolibri nýtist vel

Friðrik Runólfsson tæknilegur leiðtogi hjá Kolibri
Friðrik Runólfsson tæknilegur leiðtogi hjá Kolibri
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Að sögn Friðriks Runólfssonar tæknilegs leiðtoga hjá Kolibri fór samstarfið strax í kraftmikinn farveg. "Markmið Völku með samstarfinu voru vel skilgreind. Við náðum strax samstöðu um vinnukerfi og samskipti við hagaðila gagnvart verkefna- og vörustjórnun og hlutverk samstarfsteymisins eru vel skilgreind," segir Friðrik.

Ívar Meyvantsson vöruþróunarstjóri Völku
Ívar Meyvantsson vöruþróunarstjóri Völku
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ívar Meyvantsson, sem fer fyrir vöruþróun Völku, segir samstarfið við Kolibri verðmætt. "Hjá vaxandi fyrirtæki þar sem fókusinn er á vöruna og hraða framþróunar hennar, er verðmætt að fá fyrirtæki eins og Kolibri til að fínpússa með okkur nálgun og aðferðafræði í hugbúnaðarþróun, þ.e. byggja upp heildarsýn á verkefni, brjóta niður í sögur og fá Agile fyrirkomulag til að flæða hnökralaust. Reynsla Kolibri á þessu sviði nýtist okkur vel og eflir okkar teymi enn frekar til góðra verka" segir Ívar og bætir við að markmið séu um framvindu og aðgerðarþætti að minnsta kosti fram á mitt ár.

Sjá einnig: 300 milljónir í Völku