Kolmunnaskipin eru að veiða vel vestur af Írlandi en þau héldu til veiða um síðustu helgi. Það tók þau um þrjá sólarhringa að sigla um 800 mílur á miðin.

Frá þessu greinir á vef Síldarvinnslunnar en Bjarni Ólafsson AK fyllti í gærmorgun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar á sunnudag með 1.700 tonn. Margrét EA lagði af stað í nótt með 2.000 tonn og Börkur NK í morgun með 2.300 tonn. Þá var Beitir NK kominn með góðan afla þegar síðast fréttist, segir þar.

Í fréttinni er rætt við Þorkel Pétursson stýrimann á Bjarna Ólafssyni. Sagði hann að aflinn hefði fengist í fimm holum.

„Í þessum fimm holum var aflinn á bilinu frá 240 og upp í 735 tonn. Í stærsta holinu var einungis dregið í rúmlega 20 mínútur. Við misstum eitt hol vegna þess að pokinn sprakk, það var allt of mikið í honum. Þarna eru alveg feiknalegar lóðningar, þetta er bara eins og veggur. Menn þurfa að gæta sín vel á að fá ekki of mikið í trollið. Það var blíða á miðunum allan tímann sem við vorum að veiðum en nú er spáð verra veðri og við munum líklega fá einhver leiðindi á síðari hluta leiðarinnar. Þegar við lukum veiðum voru 820 mílur til Neskaupstaðar, þannig að siglingin er engin smádorra,“ segir Þorkell.