Kolmunnaveiðum er nú lokið á árinu. Íslensku skipin veiddu tæp 418 þús. tonn á árinu samanborið við 501 þús. tonna afla á árinu 2003. Aflaverðmæti kolmunnans á síðasta ári nam ríflega 3,4 mö. kr. Miðað við veitt magn á árinu og lækkað verð á mjöli frá fyrra ári má búast við því að verðmæti kolmunnaaflans sé um 2,5 ma.kr. á þessu ári segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Aflahæsta skipið í ár var Hólmaborg SU með 44,4 þús. tonn, næst kom Ingunn AK með 41,7 þús. tonn og svo Börkur NK með 40,1 þús. tonn.

Íslendingar settu sér einhliða 713 þús. tonna kvóta fyrir árið 2004 (almanaksárið) í kjölfar þess að Evrópusambandið ákvað að auka leyfilegan afla aðildarríkjanna um 90%. Á dögunum ákvað sjávarútvegsráðuneytið svo að lækka aflamark í kolmunna á árinu 2004 úr 713 í 428 þús. tonn þegar ljóst var að kvóti íslensku skipanna næðist ekki.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.