Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur stofnaði í vikunni einkahlutafélagið Kölska. Hann segir ástæðuna fyrir stofnun félagsins vera praktíska. „Þetta er bara félag utan um rithöfundinn og bækurnar. Ekki mikið stórfyrirtæki náttúrlega, en ég taldi skynsamlegast að setja þennan rekstur í einkahlutafélag.“ Stefán sendi frá sér bókina Litlu dauðarnir í október síðastliðnum, en hún hefur fengið mjög góða dóma meðal gagnrýnenda. Höfundurinn vill hins vegar ekki einskorða sig við íslenskan markað og hefur einnig gefið út bækur sínar ytra. „Ég hef aðallega verið að gefa út í Frakklandi, en mín önnur bók kemur út í Svíþjóð á næsta ári. Ég bind dálitlar vonir við Svíþjóð en þetta er samt dálítið lottó. Íslenskir rithöfundar eru litlir í útlöndum, enginn veit hver maður er svo þetta getur verið mikil harka,“ segir Stefán Máni.

Kvikmyndin Svartur á leik var gefin út árið 2012 en hún er byggð á samnefndri bók eftir rithöfundinn. Spurður hvort einhverjir fleiri kvikmyndasamningar séu á döfinni segir Stefán að svo sé. „Annars vegar er Arnar Knútsson með réttinn á unglingabókum sem ég er með í smíðum. Það eru varúlfabækur og ég er búinn að gefa út eina sem heitir Úlfshjarta. Bók númer tvö kemur út núna í mars en Arnar á réttinn að þríleiknum.“ Þá hefur verið gengið frá samningi um framleiðslurétt á bókunum um lögreglumanninn Hörð Grímsson.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .