Good Good hyggst í lok sumars koma með nýja bragðtegund á markaðinn í nýjustu vörulínu félagsins, svokölluðum ketóbörum sem hafa verið á boðstólunum hér á landi, í Bretlandi og Hollandi, frá því í janúar með saltkaramellu og lakkrísbragði.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er fyrirtækið nýlega búið að fara í gegnum 400 milljóna króna hlutafjáraukningu eftir mikinn vöxt síðustu ára, þar sem veltan hefur tvö- og þrefaldast ár frá ári. Í ár stefnir hún á yfir 600 milljónir króna, eftir að sala félagsins argfaldaðist á Amazon í kjölfar þess að þær fengi merkingar sem keto.

Garðar Stefánsson - Via Health
Garðar Stefánsson - Via Health
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Garðar Stefánsson framkvæmdastjóri félagsins segir bari Good Good vera með mun minna af kolvetnum en aðrar sambærilegar vörur. „Þeir verða með hindberjaostakökubragði, en þessir barir eru fljótt að verða ein söluhæsta varan okkar á sínum mörkuðum, eftir einungis einhverja fjóra eða fimm mánuði í sölu, sem er að koma okkur skemmtilega á óvart. Til dæmis eru þeir komnir í annað sæti yfir vinsælustu heilsubarina á breska Amazon," segir Garðar.

„Það eru einungis 2,5 nettó grömm af kolvetnum í hverjum bar, en sem dæmi er næstum 6 sinnum meira í Snickersbar sem margir grípa í ef eru svangir. Við notum sömu sætuefni og eru í sírópinu okkar, sem er rosalega trefjaríkt, og svo notum við sætuefnið Erythritol, sem þó hafði verið flokkað með kolvetnum frá upphafi eins og aðrar fjölsykrur, inniheldur enga orku.“

Garðar segir félagið alltaf taka fram í innihaldslýsingum á vörum sínum hvaða sætuefni séu í þeim.„Við tökum alltaf fram á okkar vörum, þó það sé valkvætt, að við notum fjölsykrur, eða polyol eins og Erythritol því það hækkar ekki blóðsykurmagnið. Þeir sem fylgja ketó-matarræðinu lesa innihaldslýsingar nefnilega mjög nákvæmlega. Sama á við um trefjar, þess vegna er sýrópið okkar ketó þar sem trefjarnar nema 60 grömmum af hundraðinu, meðan það eru bara þrjú grömm af náttúrulegum sykri í því,“ segir Garðar.

„Sultan telst einnig ketó því það er ekki hátt hlutfall af náttúrulegum sykri í berjunum, en súkkulaði-smjörið, þótt það sé án viðbætt sykurs, telst ekki ketó. Það eru kolvetni í heslihnetunum og svo notum við annað sætuefni þar, maltitol. Markmið okkar er að Good Good sé þekkt sem vörumerki án viðbætts sykurs og hitti það mjög vel á þegar ketó-æðið byrjaði."

Galdurinn að líkjast sykruðum vörum

Í því ástandi sem skapast hefur í hagkerfi heimsins vegna kórónuveirufaraldursins hefur netsala víða um heim tekið kipp. Það hefur hjálpað Good Good, sem framleiðir vörur sínar í samstarfi við stóra framleiðendur í Hollandi, en sætuefnin koma frá Asíu.

„Kínverjar eru stærstu sætuefnaframleiðendur í heimi, en við vorum heppnir, því við höfðum verið að birgja okkur upp fyrir söluátak því við ætluðum að fara á fjölda sýninga sem voru áætlaðar. Síðan fréttum við að eitthvað væri í gangi þar í landi, og brugðumst því við með því að birgja okkur frekar upp. Við vissum þó ekki að þetta yrði svona risastórt. Við lentum því ekki í vöruskorti með sætuefnin, en Belgía lokaðist sem hafði áhrif á framleiðslu súkkulaðismjörsins. Hins vegar hafði ástandið ekki áhrif á best seldu vörurnar okkar eins og sulturnar, en berin í þær koma meðal annars frá Póllandi," segir Garðar.

„Við völdum í upphafi að vera i samstarfi við stóra framleiðendur sem eru að framleiða aðallega hefðbundnar sykraðar vörur til dreifingar út um allan heim. Þeir geta því brugðist hratt við aukinni eftirspurn. Fyrst var barátta fyrir okkur að komast að hjá þeim, en það hefur þróast yfir í það að við erum orðnir þeir kúnnar sem eru að vaxa hvað hraðast hjá þeim. Við komum með sykurlausu uppskriftina til þeirra, og segjum að við viljum búa þetta til, getið þið gert það, og þeir gera það. Það er ótrúlega flókið að búa til vöru sem á að líkjast fyrirmyndinni, sem eru hefðbundnar sykraðar vörur, en án sykurs.

Galdurinn er að það hefur tekist og þess vegna kaupir fólk vörurnar aftur og aftur. Það er verið að segja að súkkulaðismjörið okkar sé til dæmis betra en Nutella, sem er að sýna sig í sölutölum, það er komið í topp 10 yfir söluhæsta hnetusmjörið á Amazon. Við erum að nálgast þá í sölumagni hérna á Íslandi. Bandaríkjamenn kaupa hnetusmjörið og sulturnar mikið saman, enda alger „peanut butter og jelly" þjóð. Þetta tvennt, ásamt sírópinu sem við erum að vinna að því að setja í stærri umbúðir sem ekki eru úr gleri, eru í smyrjulínunni okkar. Síðan erum við með sætuefnalínu þar sem hægt er að kaupa stevíudropa og gervisykurinn sér, og svo eru „crunchy" ketóbarirnir okkar þriðja vörulínan."

„Er þetta íslenskt?"

Garðar segir félagið stöðugt vera að prófa sig áfram með nýjar bragðtegundir og mögulegar vörulínur en í dag sé áherslan á að auka við sölu enn frekar á núverandi vörum.

„Við ákváðum að sækja meira fjármagn til þess að styrkja stöðu okkar í Bandaríkjunum og fengum við Arcur Finance til liðs við okkur í því. Í framhaldinu vonumst við til að ráða einn til tvo sölumenn til að byrja með í haust á austurströndinni, og svo líklegast á vesturströndinni eftir áramót. Í dag erum við bara tveir að vinna á skrifstofu Good Good, ég og stjórnarformaðurinn Jóhann Ingi Kristjánsson, svo við erum mjög lítið teymi.

Síðan erum við með Pharlogis með okkur í vöruog fjármálastýringu. Með stuðningi hluthafa okkar í Icepharma, sem eru með sömu eigendur Pharlogis, og Aton.JL, sem er stærsta auglýsingastofa landsins, er okkur að takast að starfa eins og fyrirtæki með tugi starfsmanna," segir Garðar en í hlutafjárútboðinu komu bæði nýir innlendir og erlendir aðilar inn í félagið.

„Það besta var að fólk hér á landi vissi ekki að við værum Íslendingar og íslenskt fyrirtæki. Það hafði séð vörurnar og jafnvel átti þær, og spurði í forundran: „Er þetta íslenskt? Af hverju er maður ekki búinn að heyra um þetta, vá þið eruð í Walmart en bara með skrifstofur í Reykjavík" sem mér fannst mjög skemmtilegt að heyra. Nýju fjárfestarnir trúa því sama og við, að framtíðin sé í heilsusamlegum vörum."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .