Halldór Óskar Sigurðsson er framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi. Umtalsverður kostnaður fór í að halda auðu húsi Bauhaus gangandi en það kom ekki til greina að hætta alfarið við opnun verslunarinnar hér á landi segir Halldór í viðtali við Viðskiptablaðið. Hann segir þetta svipað og með þýska boltann, þýsku liðin gefast aldrei upp.

Halldór var upphaflega ráðinn framkvæmdarstjóri þegar til stóð að opna verslunina í lok árs 2008. Honum var sagt upp störfum eins og öðru starfsfólki sem hafði verið ráðið þar sem opnuninni var frestað um óákveðinn tíma. Halldór snéri aftur til starfa fyrir rúmu ári og verslunin var svo opnuð 5. maí síðastliðinn.

Þýsku liðin gefast aldrei upp

Til stóð að opna Bauhaus í lok árs 2008 en ákveðið var að leggja þær áætlanir á ís á meðan óvissa um efnahagsástandið á Íslandi gekk yfir.

Hefur ekki verið sest niður og farið yfir kostnaðinn við að bíða í þennan tíma? „Þetta hús stóð autt allan tímann. Í um þrjú og hálft ár. Það er umtalsverður kostnaður við að halda svona húsi gangandi. En samt sem áður var það alveg rétt ákvörðun að bíða með þetta þar sem óvissan var það mikil. Fólk gerði sér enga grein fyrir því hvernig þetta myndi fara hérna á sínum tíma,“ segir Halldór, sem telur þá tímasetningu fyrir opnun vera rétta sem á endanum varð að veruleika.

Kom aldrei til greina að einfaldlega hætta við? „Alveg örugglega ekki. Þetta er bara eins og með þýska boltann. Þýsku liðin, þau gefast aldrei upp.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.