*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 15. september 2017 07:57

Kom ekki til greina að takmarka Icelandic

Vörumerkið Icelandic verður í framtíðinni einskorðað við íslenskar vörur en ekki var samið um það við útleigu á því árið 2011.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, sem á vörumerkið Icelandic segir að ekki hafi komið til greina á sínum tíma að semja um að vörumerkið yrði einungis markaðssett fyrir íslenskar vörur.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur kínverskur hraðvaxandi eldisfiskur, Tilapía verið seldur undir merkjum Icelandic í Norður-Ameríku, en til standi að breyta því á næsta ári.

Kanadískt félag með merkið á leigu

„High Liner er sammála því,“ segir Herdís, en félagið High Liner Foods frá Kanada fékk vörumerki Icelandic Seafood leigt árið 2011, en samkomulagið gildir til desember 2018 að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Það hefur staðið fyrir gæðavörur um áratugi og þegar vörumerkið var leigt var áhersla lögð á að tryggja gæðin með því að hafa áfram skýran ramma um hvernig vörur mætti markaðssetja undir vörumerkinu. Sá rammi tók meðal annars mið af þeim Icelandic vörum sem þá þegar voru í sölu á bandarískum markaði með góðum árangri.“

Ekki þekkt meðal almennings

Herdís segir að þó samkomulagið gildi út næsta ár sé unnið að tímalengd samningsins og breyttum skilmálum.

„Stærsta einstaka breytingin er að eingöngu íslenskar vörur verða seldar undir merkinu og meiri áhersla lögð á ímyndaruppbyggingu og markaðssetningu sem tengir við upprunann, Ísland, en að auki er nokkrum öðrum minni atriðum breytt,“ segir Herdís.

„Icelandic á sér langa sögu í Bandaríkjunu og var og er þekkt vörumerki í matvælageiranum þó það sé ekki þekkt meðal almennings.“