Í ávarpi sínu á aðalfundi N1 greip Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður félagsins, til varna fyrir forstjórann, Eggert Þór Kristófersson og starfskjör hans. Margrét sagði það alveg ljóst að laun forstjórans væru mjög góð en benti á að árið 2016 hefði verið besta ár félagsins frá upphafi og að stór hluti launa Eggerts Þórs hefðu verið árangurstengdar greiðslur fyrir það ár.

Eggert Þór fékk samtals 70,5 milljónir króna í laun, hlunnindi og árangurstengdar greiðslur á síðasta ári. Félagið og Eggert Þór hafa mætt harðri gagnrýni meðal annars frá Lífeyrissjóði verslunarmanna og stjórnarmanni í lífeyrissjóðnum Gildi en sjóðirnir tveir eru stærstu eigendur í félaginu.

Margrét sagði að vegna góðrar afkomu árið 2016 hefði skilyrðum fyrir hámarkskaupauka verið mætt en árangurstengdar greiðslur til Eggerts Þórs voru 21 milljón króna. Þá sagði hún einnig að meðallaun á hvert stöðugildi hjá félaginu hefðu hækkað um 27% á umliðnum fjórum árum. Laun vakt- og stöðvarstjóra hafi hækkað um 35 og 34% og launavísitalan um 36%. Á sama tíma hefðu föst laun og hlunnindi í framkvæmdastjórn hækkað um 9% og hlunnindi forstjóra um 3% en ef kaupauki ársins 2017 væri talin með hefði forstjórinn hækkað um 36% í launum.

Ennfremur benti hún á að í desember hefði verið gengið frá launabreytingum forstjóra og framkvæmdastjóra fyrir árið 2018. Niðurstaðan hefði verið sú að föst laun Eggerts Þórs yrðu 46,8 milljónir króna á árinu 2018 auk kaupauka vegna niðurstöðu ársins upp á 11,4 milljónir króna. Laun hans verða því að meðaltali 5,1 milljón á mánuði í ár.

Jafnframt sagði hún að Eggert Þór hafi verið afar farsæll stjórnandi. Á tíma hans í forstjórastólnum hafi verðmæti hlutafjár félagsins aukist um 90% auk þess sem félagið hafi greitt til hluthafa 8,4 milljarða með lækkun hlutafjár og arðgreiðslum.