Frystitogarinn Blængur er nýkominn úr ríflega mánaðarlöngum túr í Barentshafið með um 540 tonn. Landað var í heimahöfn í Neskaupstað á mánudaginn.

„Ég fór af stað 22. október í rússnesku lögsöguna og átti að reyna að veiða þarna hátt í 600 tonn þar,“ segir Theódór Haraldsson skipstjóri, „og ef ég næði því átti ég að taka 100 tonn í norsku landhelginni líka sem Íslendingar áttu eftir þar.“

Hann kom á svæðið þremur og hálfum sólarhring eftir að lagt var úr höfn á Íslandi.

„Þegar ég kem þangað þá var einhver veiði þarna, en ég kom bara í endann á henni. Fyrstu þrír dagarnir voru bestu dagarnir í túrnum eiginlega. Þar var ég með upp í tvö tonn á togtímann. Svo gerði nú brælu þarna og þá datt niður veiðin alveg. Það gerist oft þarna á þessu svæði að ef það brælir þá hverfur allur fiskur. Nema þarna þá jafnaði það sig ekkert, fiskurinn hvarf bara. Svo var þetta bara þetta sama nudd, eitthvað fimm til sex hundruð kíló á togtímann, eða þrjú fjögur tonn í holi. Við vorum að draga svona 5-6 tíma.“

Vænn fiskur á Skolpenbanka

Togað var á Skolpenbankanum framan af en Theódór fékk síðan fréttir af fiski töluvert austar í lögsögunni, á Gæsabanka svokölluðum.

„Ég keyrði langleiðina til þeirra en þá kom í ljós að það var bara eins kílóa fiskur, sem þeir lágu í þar. Það var svo smátt að maður heldur þessu ekki inni í þessum íslensku veiðarfærum. Ég prófaði samt á leiðinni þarna austureftir á einni bleyðu þarna og þar voru Rússar að mokfiska líka. Ég dró þarna með þeim en fékk engan fisk. Þeir voru með smærri riðil í pokanum hjá sér og héldu þessu inni. Þannig að ég hélt svo bara til þarna á Skolpenbanka, það var mjög vænn fiskur þar en því miður bara ekki meira en þetta.“

Eftir 32 daga á veiðum voru tæp 540 tonn komin um borð. Alls tók túrinn 39 daga, þrjá og hálfan út og fjóra sólarhringa heim.

„Við vorum lengur heim út af veðri. Lægðin sem gerði allt vitlaust hérna um síðustu helgi kom á móti mér þarna í Atlantshafinu þannig að ég sigldi svolítið suður með Noregi áður en ég tók stefnuna yfir hafið, til að komast framhjá þessari lægð.“

Undanfarin þrjú ár hefur Blængur siglt alls fimm sinnum norður í Barentshaf.

„Það er búið að senda okkur í þetta síðan 2018. Það er eftir að Samherji leggur Snæfellinu sem þetta verkefni verður til fyrir okkur. Það er eiginlega ekki hægt að ná í þennan þorsk þarna í rússnesku lögsögunni á neinu nema frystitogara.“

Dandalablíða á sumrin

„Það er rosalega gott að vera þarna á sumrin, í maí, júní og júlí. Þá er alveg spegilsléttur sjórinn þarna og dandalablíða upp á hvern einasta dag. En svo þegar maður er kominn svona norðarlega á þessum árstíma, þá er stöðugur vindur allan tímann. Í þessum túr voru þetta 15-20 metrar eiginlega allan túrinn. Svo er náttúrlega myrkur allan sólarhringinn þegar maður er þarna á þessum árstíma. Á íslenskum tíma þá rétt húmaði aðeins milli tíu og hálftólf, varð aldrei almennilega bjart einu sinni þarna í restina.“

Blængur heldur núna á Íslandsmið að reyna við ufsa og karfa, en það er hin áhöfnin sem sér um þann túr. Theódór og hans menn eru fegnir því að vera komnir í jólafrí.

Umfjöllunin birtist upphaflega í Fiskifréttum 3. desember.