Danski FIH bankinn eyddi töluverðum fjárhæðum í að halda á lífi fyrirtæki sem hafði tekið yfir lélegar eignir bankans. Fyrirtækið, A/S af 14/6 1995, sem á pappírnum var í eigu félagsins Difco, hafði formlega ekkert með bankann að gera, en hann fjármagnaði hins vegar öll kaupin og bar af þeim fjárhagslega áhættu. Losaði bankinn sig við lélegar eignir, t.d. undirmálslán, í þetta fyrirtæki, að því er segir í dönskum miðlum. Með því að selja eignirnar með þessum hætti fékk bankinn hærra verð, á pappírnum að minnsta kosti, fyrir þessar lélegu eignir.

Talsmaður danska fjármálaeftirlitsins segir að samkvæmt mati þess eigi að líta á fyrirtækið sem dótturfélag bankans. FIH bankinn viðurkennir að fyrirtækið hafi starfað í þágu bankans, en þar vilja menn þó meina að góðar ástæður hafi verið fyrir því. Eignirnar hafi verið seldar á uppboði þar sem hrægammar sitji fyrir fyrirtækjum. Bjóði menn ekki sjálfir í eignirnar fari þær á langt undir markaðsvirði.

Seðlabanki Íslands fékk danska bankann í hendurnar eftir bankahrun og seldi hann í kjölfarið. Mun Seðlabankinn hafa tapað um helmingi af þeim fimm milljörðum danskra króna sem hann átti að fá fyrir danska bankann, því söluverðið var m.a. bundið við markaðsvirði FIH fram til ársloka 2014.