KOM ráðgjöf og auglýsinga- og almannatengslastofan Ampere hafa sameinast og munu fyrirtækin starfa undir merkjum KOM ráðgjafar. Guðrún Ansnes, annar eigenda Ampere, tekur við sem framkvæmdastjóri KOM af Friðjóni R. Friðjónssyni sem gegnt hefur stöðunni síðastliðin 9 ár. Meðeigandi Guðrúnar, Tinna Pétursdóttir, verður hönnunarstjóri KOM og mun byggja upp hönnunarteymi KOM ráðgjafar.

Við þessa breytingu verða Friðjón og Björgvin Guðmundsson, meðeigandi í KOM, áfram í níu manna teymi ráðgjafa KOM, sem stofnað var fyrir 37 árum. Með sameiningunni við Ampere er ætlunin að auka þjónustuframboð KOM, sem hefur einbeitt sér að almannatengslum, krísustjórnun, fjölmiðlasamskiptum, stjórnendaráðgjöf, greiningum, samskiptum við hagaðila og skipulagðri upplýsingagjöf.

Við sameininguna er meiri áhersla lögð á markaðsmiðaða ráðgjöf, þar sem teymi sérfræðinga í almannatengslum og myndrænni framsetningu skilaboða veita viðskiptavinum mikilvægan stuðning við ákvarðanatökur, framsetningu efni og ásýnd. Bæði Tinna og Guðrún hafa starfað fyrir stærstu fyrirtæki landsins á sviði markaðs- og kynningarmála, gerð kynningarefnis, framkvæmd herferða og hönnun útlits.

„Við erum reglulega ánægðar með sameiningu félaganna tveggja enda samlegðaráhrifin ótvíræð," segir Guðrún. „KOM er eitt elsta og reynslumesta félag á sínu sviði hérlendis með öflugt og fjölbreytt teymi ráðgjafa innanstokks. Með sameiningunni gefst okkur kostur á að takast á við virkilega  spennandi áskoranir, enda komum við að borðinu með aðrar áherslur og það mun skila sér í enn sterkara félagi og meiri breidd í þjónustuframboði þessa rótgróna félags."

Nýjar áherslur KOM munu styðja við sérhæfða ráðstefnufyrirtækið Komum ráðstefnur, sem er í eigu KOM og starfsmanna. Bæði getur KOM séð um fundi og ráðstefnum sinna viðskiptavina og veitt ráðgjöf um úrlausn á útliti og skilaboðum þegar kemur að ráðstefnu- eða fundahaldi.

Friðjón segir að sameiningin sé skemmtilegur og rökréttur áfangi í þróun KOM. „Almannatengslaráðgjöf tekur stöðugum breytingum rétt eins og boðleiðirnar og markaðurinn og því er verður til úr þessu öflugra félag. Ég hef stýrt KOM í 9 ár og ég hlakka til að einbeita mér að öðrum verkefnum en um leið fá að sinna afmörkuðum verkefnum hjá KOM."