*

mánudagur, 13. júlí 2020
Fólk 22. júní 2019 19:01

Kom, sá og sigraði í tennis

Forstjóri Ísaga, Erik Larsson, flutti sérstaklega til landsins til að taka við félaginu sem fagnar 100 árum í sumar.

Höskuldur Marselíusarson
Erik Larsson gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í tennis innanhúss, 50 ára og eldri, eftir að hann flutti til landsins til að taka við stjórn Ísaga.
Haraldur Guðjónsson

Erik Larsson tók við stjórn Ísaga, íslensks dótturfélags hins sænska félags AGA sem er í eigu þýska félagsins Linde-Praxair, um áramótin. „Ég hef unnið fyrir AGA, í 23 ár, og tekið að mér margvísleg störf fyrir félagið, nú síðast var ég markaðsstjóri fyrir málmiðnaðarstarfsemi félagsins í NorðurEvrópu,“ segir hinn 56 ára gamli Erik.

„Ég er verkfræðingur að mennt frá KTH í Stokkkhólmi en ég byrjaði starfsferilinn sem framleiðslustjóri í stáliðnaði AGA. Síðan tók ég að mér ýmiss konar verkefnastjórn og svo hef ég verið markaðsstjóri í Svíþjóð fyrir mismunandi iðngeira sem AGA starfar á. Helsti munurinn á því sem ég er að gera síðan ég kom hingað er fjölbreytnin, en hér kem ég að öllu frá matvælaiðnaði, fiskeldi til málmiðnaðar. Maður er með fingurna í markaðsmálum, sölumálum, framleiðslu og öllu sem viðkemur í daglegri stjórnun á fyrirtækinu.“

Erik hafði lengi langað að prófa að starfa erlendis, og þegar fyrrverandi framkvæmdastjóri Ísaga, sem bæði framleiðir og flytur inn ýmiss konar iðnaðargös, steig til hliðar sló hann til um að fylla í skarðið.

„Það er ekki ljóst hve lengi ég verð hér, en alla vega fram yfir afmælið sem verður 30. ágúst, en þá bjóðum við vinum og viðskiptavinum í heimsókn og sýnum allt það sem við höfum upp á að bjóða í bæði logsuðu, fiskeldi og heilbrigðistækni, svo bjóðum við upp á ís, pylsur og fleira,“ segir Erik og vísar til þess að fyrirtækið verður 100 ára í lok sumars.

Þar sem hann býr hér einn flýgur Erik heim til Svíþjóðar til konu og barna, sem eru 17 og 20 ára, um það bil mánaðarlega. „Sjálfur hafði ég heyrt að hér væri dimmt, vindasamt og blautt áður en ég kom, þó ég vissi lítið annað um landið, en ég hafði ekki áttað mig á hversu dimmt, vindasamt og blautt það væri, þegar ég kom í desember.“

Hækkandi sól og betra veður var því Erik kærkomið. „Það hefur verið frábært, og sama á við um nálægðina við náttúruna. Það er svo auðvelt að fara hér í stuttar helgarferðir, eins og á Reykjanesinu og víðar, sem og fjallgöngur, hef til dæmis farið mörgum sinnum upp á Esjuna og í Reykjadalinn. Síðan hef ég eignast góða vini við að spila tennis nokkrum sinnum í viku, varð einmitt Íslandsmeistari eldri en 50 ára innanhúss í vetur, og svo fer ég mikið í ræktina og sund.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Svíþjóð Linde Erik Larsson tennis Praxair Ísaga