Ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks, að skipa Ólöfu Nordal sem innanríkisráðherra kom þingflokki Sjálfstæðisflokks nokkuð á óvart. Flestir hafi búist við því að ráðherra yrði skipaður úr þingflokknum.

Þetta er meðal annars skoðun Unnar Brár Konráðsdóttur. „Það er gott að það er komin ákvörðun og Ólöf er öflug manneskja þannig að við óskum henni velfarnaðar í þessum störfum. Það mikilvægasta af öllu er að hægt sé að halda áfram með verkefni ráðuneytisins og koma málum áfram," segir Unnur. Aðspurð hvort skipanin hafi komið henni á óvart segir hún svo vera. „Já, hún gerir það. Ég hélt að það yrði skipaður ráðherra úr þingflokknum og að flestir hafi talið það yrði þannig."

Ert þú óánægð með að það hafi ekki verið litið til þingflokksins?

„Eins og ég segi, ég veit að Ólöf mun gera þetta vel og óska henni til hamingju með þetta," segir Unnur Brá.

Ekki víst að allir séu ánægðir

Brynjar Níelsson tekur undir með Unni að hann hafi ekki búist við því sérstaklega að ráðherra yrði valinn út fyrir þingflokkinn. Aðspurður hvort hann teldi að einhverrar óánægju gætti innan þingflokksins segir hann almenna ánægju með útspil formannsins. „Ég hef þó kannski ákveðnar efasemdir um að allir séu ánægðir með þetta. En þarna er verið að bæta konu með reynslu í forystusæti," segir Brynjar. Hann segist hafa miklar mætur á Ólöfu Nordal.

Góðir kostir í þingflokknum

„Ég fagna því innilega að fá þennan öfluga liðsmann með okkur í stjórnarliðið," segir Elín Hirst aðspurð út í ráðstöfun formannsins. Hún segir ákvörðunina ekki hafa komið sér á óvart. „Nei ég hafði heyrt ávæning af því," segir Elín.

Aðspurð hvort henni sé kunnugt um óánægju meðal annarra í þingflokknum segir hún: „Ég get ekki svarað fyrir það, en við erum með mjög flott fólk í þingflokknum. Það vantar ekki."