Nýverið skrifaði fyrirtækið Applicon, sem er dótturfyrirtæki Nýherja, undir samstarfssamning við sænska bankann SBAB Bank AB um sölu og innleiðingu á kjarnabankakerfum. Ingimar Guðjón Bjarnason, framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi, segir að bankinn sé mjög stór á íslenskan mælikvarða.

„Við erum með tvo viðskiptavini á sviði kjarnakerfa þarna úti í Svíþjóð, Landshypotek og nú bætist SBAB við. Við höfum starfað með Landshypotek í nokkur ár og sjáum um þeirra kjarnakerfi eins og það er kallað. Þetta eru einkum hugbúnaðarkerfi fyrir þeirra innlán, útlán, greiðslumiðlun, netbanka og sérhæfðar tengingar við aðskilin kerfi. Við sjáum um að innleiða hugbúnaðinn, bæta við hann og þjónusta hann. Hýsingin er þó í höndum annarra aðila. SBAB er svo enn stærri banki, efnahagsreikningurinn er til að mynda um það bil fimm sinnum stærri en hjá íslenskum viðskiptabönkum. SBAB Bank voru að velja sér sambærilegt kerfi og Landshypotek,“ segir Ingimar.

SBAB svipar til Íbúðalánasjóðs að mörgu leyti að sögn Ingimars. Hann er í eigu sænska ríkisins og sérhæfir sig í fasteignalánum. „Þetta er búið að vera ansi langt ferli síðan menn byrja að ræða saman og hittast, eða rúmlega þrjú ár. Síðasta árið var meiri alvara í umræðunni og dýpri greining fór fram. Við gerðum forgreiningu með þeim fyrir ári – og síðan mætti bankinn með allt sitt stjórnendateymi til Íslands í maí á þessu ári. Þá var verið að taka út Nýherja sem móðurfyrirtæki, sjá hvort fyrirtækin væru ekki menningarlega samstillt,“ tekur Ingimar fram, spurður um aðdraganda samningsins.

Stafræn framtíð

„Það sem er spennandi er síðan að sjá hvernig okkur tekst í framhaldinu að nýta þessi tækifæri. Þetta vekur klárlega athygli á markaðinum, enda er ekki oft verið að skipta út svona kerfum. Það skiptir okkur miklu máli að þetta takist vel til. Við erum að komast betur inn í þessa stafrænu framtíð,“ segir Ingimar að lokum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .