Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ákveðið hafi verið á ríkisstjórnarfundi, sem lauk nú í hádeginu, að koma á fót samráðshópi sem hafa muni það hlutverk að fá nákvæmar upplýsingar um eðli viðskiptabanns Rússlands gegn Íslandi. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

„Það var tekin ákvörðun um það að gera allt sem í okkar valdi stendur, koma á fót samráðshópi, eiga samskipti alls staðar þar sem við getum gert það, fá nákvæmar upplýsingar um eðli viðskiptabannsins, eða innflutningsbanns Rússa, og eiga samtal við hagsmunaaðila til að ræða leiðir, mögulegar aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við,“ segir Bjarni í samtali við RÚV.

Hann segir að utanríkisráðherra hafi beitt diplómatískum leiðum til þess að forða því, eins og hægt væri, að Íslendingar lentu á bannlista Rússa. Nú verði hins vegar lagt mat á hvað stjórnvöld geti gert til að bregðast við þeim hagsmunum sem fari forgörðum í utanríkisviðskiptum.