*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 24. nóvember 2019 16:05

Koma fyrirtækjum á kortið í Kína

Bing Bang sérhæfir sig í beinni sölu á íslenskum og norrænum vörum til Kínverja, í gegnum kínverska samfélagsmiðla.

Sveinn Ólafur Melsted
Teymið á bakvið Bing Bang, þau Jiaqian Chen, Teitur Jónasson, Júlíus Fjeldsted, Xi Chen og Mette Bernt Knudsen, kynntu vöru sína á China International Import Expo í Shanghai á dögunum.
Aðsend mynd

Bing Bang er sölu- og markaðsfyrirtæki sem sérhæfir sig í beinni sölu til Kína. Skrifstofur fyrirtækisins eru staðsettar í Kaupmannahöfn og Reykjavík, en eigendur þess koma frá Íslandi, Danmörku og Kína. Fyrirtækið hefur unnið að því í um það bil eitt ár að geta selt íslenskar og norrænar vörur beint til kínverskra neytenda.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá íslenskum og norrænum fyrirtækjum á því að fara að selja vörur sínar til Kínverja. Eftir að hafa fundið fyrir áhuganum fórum við að kanna málið og komumst að því að svokallaður „cross border ecommerce" markaður inn í Kína er risastór. Við komumst einnig að því að það er mikil eftirspurn eftir norrænum vörum í Kína. Það er hins vegar ekki hlaupið að því fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki að hefja sölu á vörum sínum beint til kínverskra neytenda. En í fyrra opnaðist í fyrsta sinn í sögu Kína möguleiki fyrir erlend fyrirtæki að selja vörur sínar beint til kínverskra neytenda í gegnum samfélagsmiðla. Erlend fyrirtæki gátu  því í kjölfarið byrjað að opna sína eigin reikninga inni á kínversku samfélagsmiðlunum," segir Teitur Jónasson, framkvæmdastjóri Bing Bang.

„Kínversku samfélagsmiðlarnir eru byggðir upp á allt annan hátt en þeir sem við Íslendingar könnumst við, eins og t.d. Instagram og Facebook.  Rétt eins og á Facebook og Instagram  geta fyrirtæki auglýst vöruna sína beint til neytenda í gegnum kínversku miðlana. En á kínversku samfélagsmiðlunum, ólíkt hinum, er hægt að klára söluna á sama vettvangi (e. platform), en kínverskir samfélagsmiðlar eins og WeChat eru sem dæmi með sín eigin greiðslumiðlunarkerfi. Þarna er því kominn möguleiki fyrir fyrirtæki til að selja vörur sínar beint til Kínverja í gegnum þeirra samfélagsmiðla, en eðlilega er þetta menningarheimur sem norræn fyrirtæki þekkja ekki alveg. Við höfum þekkingu á kínverska markaðnum og getum því aðstoðað fyrirtækin við að komast inn á markaðinn."

Ný smápakkasendingaleið Póstsins lykilatriði

Að sögn Teits skiptist starfsemi Bing Bang upp í tvö svið; annars vegar þjónustuhluta og hins vegar sölu- og verslunarhluta; þar sem fyrirtækið safnar saman íslenskum vörum í box sem eru svo seld beint til kínverskra neytenda í gegnum WeChat. Boxin eru svo send beint frá Íslandi til Kína með Íslandspósti, en Pósturinn hyggst á næstunni opna fyrir sendingar á smápökkum, sem sniðnir eru að þörfum netverslana, til Kína og fleiri landa í Asíu.

„Við erum í grunninn sölu- og markaðsfyrirtæki. Við höfum verið að þjónusta fyrirtæki á Norðurlöndunum, sem vilja markaðssetja vörur sínar til kínverskra ferðamanna, í um tvö ár. Þannig höfum við  verið að hjálpa fyrirtækjum við að gera sig sýnileg á  kínverskum  samfélagsmiðlum. Kínverskir samfélagsmiðlar  líkt og WeChat eru, eins og áður segir, allt öðruvísi en þeir sem við Íslendingar þekkjum.

Frá því í nóvember í fyrra höfum við svo verið að þróa þá hugmynd að geta selt íslenskar vörur beint til kínverskra neytenda í gegnum okkar vettvang á WeChat. Til þess þurfti ýmislegt að gerast, m.a. þurfti að vera til leið til að geta sent smápakka beint frá Íslandi til Kína, rétt eins og hægt er að gera til Evrópu eða Bandaríkjanna. Við vorum í miklum samskiptum við Póstinn og pressuðum á að það yrði opnað fyrir beinar smápakkasendingar frá Íslandi til Kína, sem er lykilatriði í okkar viðskiptamódeli. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að Pósturinn sé nú að opna á þessar sendingar. Nú höfum við því loks náð að hnýta alla þræði saman og tókum nú á dögunum þátt í China International Import Expo (CIIE) í Shanghai. Þar kynntum við boxið okkar til leiks og opnuðum samtímis á sölu í gegnum okkar eigin WeChat verslun. Við stefnum á að senda fyrsta boxið til Kína með Póstinum sem allra fyrst.

Í þessum boxum erum við að sameina nokkrar húð- og heilsuvörur frá hinum ýmsu fyrirtækjum í stærri pakka, í stað þess að senda eina vöru í einu sem er kostnaðarsamt. Við erum í raun að búa til Bing Bang sem vörumerki utan um íslenskar og norrænar vörur. Þetta mun gera fyrirtækjum kleift, með tiltölulega litlum tilkostnaði, að auka markaðssetningu og koma sinni vöru á framfæri í Kína."

Í fyrsta boxinu frá Bing Bang má finna vörur frá íslensku fyrirtækjunum Taramar, Sóley Organics, geoSilica, Verandi og Teko. Teitur segir að Bing Bang stefni svo á að bjóða upp á úrval af fleiri boxum í framtíðinni og sömuleiðis gera neytandanum kleift að velja vörur að eigin vali ofan í box.

Koma til móts við þarfir netverslana

Elvar Bjarki Helgason, forstöðumaður söludeildar Íslandspósts, segir að undirbúningur við að opna fyrir sendingar á smáum pökkum sem vega innan við tvö kíló, til Kína og fleiri landa í Asíu, sé á lokametrunum. Með þessu sé Pósturinn að koma til móts við þarfir netverslana.

„Þessar smápakkasendingar eru þegar í boði fyrir þó nokkur Evrópulönd, auk Bandaríkjanna og Kanada. Nú ætlum við svo að opna nýjar gáttir til Kína og fleiri Asíulanda. Netverslun hefur vaxið gífurlega undanfarin ár og samhliða því varð til krafa um að við myndum koma fram með nýjar þjónustuleiðir. Við ákváðum því að svara kallinu og bættum smápakkasendingum til Kína við þjónustuframboð okkar." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér