Sykursýki er ört vaxandi vandamál í heiminum en tæplega hálfur milljarður manna er með sjúkdóminn sem er ein helsta orsök blindu fólks á vinnualdri. Íslenska sprotafyrirtækið Risk ehf. hefur síðastliðinn áratug þróað áhættureikninn RetinaRisk sem reiknar út hvaða sykursýkisjúklingar eiga í hættu á sjónskerðingu. Á dögunum kynnti Risk samstarf við Bandarísku sykursýkisamtökin (ADA) um að gera áhættureikninn, sem er sá eini sinnar tegundar í heiminum, aðgengilegan bandarískum almenningi.

„Sykursýki er ein helsta orsök blindu í heiminum en hægt er að koma í veg fyrir sjónskerðinguna í yfir 90% tilvika með snemmgreiningu og viðeigandi meðferð. Okkar markmið er að allir einstaklingar með sykursýki geti fylgst með sinni áhættu og komið í veg fyrir fylgikvilla. Áhættureiknirinn sýnir að ef þú nærð betri tökum á blóðsykri- og þrýstingi þá minnkar áhættan á sjónskerðandi augnsjúkdómum umtalsvert,“ segir Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Risk. Hún bætir við að Risk horfi til þess að færa út starfsemina og draga úr öðrum fylgikvillum sykursýki í framtíðinni.

Risk hefur þróað og sett á markað þrjár vörur. Smáforritið RetinaRisk, sem er m.a. aðgengilegt í App Store og Google Play, fór í loftið árið 2019 og hafa nú nærri milljón manns í 175 löndum sótt appið. Risk hefur einnig þróað svokallaða API-tengingu sem tengist upplýsingakerfum spítala og hjálpar þeim að greina áhættuhópa og bæta skilvirkni skimunar. Á síðasta ári gaf fyrirtækið einnig út veflausn sem gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að reikna áhættu hvers sjúklings, á eigin tölvum.

Aukið öryggi og hagræðing

Landspítalinn er nú að innleiða API-lausnina sem mun gera honum kleift að meta hvaða einstaklinga er brýnast að kalla inn í augnskimun. Þar er hún einnig tengd við RetinaRisk smáforritið sem hjálpar sjúklingum og læknum að miðla á milli sín upplýsingum. Sigurbjörg segir að indverskir spítalar, sem þjóni tæplega hálfri milljón manns, séu einnig búnir að taka upp lausnina. Auk þess að öryggi sjúklinga eykst geti lausnin einnig stuðlað að töluverðri hagræðingu í rekstri spítalanna.

„RetinaRisk-reiknirinn getur séð fyrir þína einstaklingsmiðuðu áhættu og sagt til um hvenær er rétt að þú farir í augnskimun. Núverandi fyrirkomulag felur í sér að allir sjúklingar fara a.m.k. einu sinni á ári í augnskimun en fyrir marga er nóg að koma inn annað hvert ár. Rannsóknir sýna að með því að nota RetinaRisk til að stýra augnskimun fyrir fólk með sykursýki má lækka kostnað tengdum þessari þjónustu um 40%-60% samhliða því að bæta þjónustu við sjúklingana í mestri áhættu.“

Risk á nú í samningaviðræðum við stór sjúkraskrárkerfi á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og Suður-Ameríku. Sigurbjörg bindur einnig vonir við að samstarfið við Bandarísku sykursýkisamtökin opni dyr fyrir fleiri samstarfsverkefni vestanhafs.

Klínískar rannsóknir veita forskot

Risk var stofnað fyrir tæpum áratug af Einari Stefánssyni augnlækni, Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, og Örnu Guðmundsdóttur innkirtlalækni. Þau fengu styrk frá Tækniþróunarsjóði til að þróa frumgerð af áhættureikningum og ráðast í víðtækar klínískar rannsóknir á reikniformúlunni. Búið er að rannsaka reikninn til hlítar hjá 30 þúsund einstaklingum með sykursýki erlendis. Þessi vinna mun reynast afar dýrmæt að sögn Sigurbjargar.

„Stafrænum lausnum á heilbrigðissviðinu fer ört fjölgandi og því er samkeppnin mikil. Hins vegar er sífellt verið að leggja auknar kröfur á að virkni þessara lausna sé sannreynd með klínískum rannsóknum. Það veitir okkur forskot að vera með allt þetta klárt,“ segir Sigurbjörg sem kom inn í teymi Risk árið 2018 eftir að hafa unnið hjá NATO út í Brussel í hartnær 20 ár við varnaráætlanir og nýsköpun.

Meðal hluthafa Risk er Icelandic Venture Studios (IVS) sem fjárfesti síðast í fyrirtækinu árið 2020, fyrir hálfa milljón dala. Sigurbjörg segir að IVS hafi reynst frábær bakhjarl í fyrsta vaxtafasanum. Fyrirtækið á nú í viðræðum um nýja fjármögnun en bæði innlendir og erlendir fjárfestar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sýnt áhuga. Sigurbjörg áætlar að fjármögnunarlotunni ljúki í sumar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .