Á vef fjármálaráðuneytisins birtist í dag samantekt þar sem farið er yfir stöðu og þátttöku Íslands í alþjóðlegum sáttmálum og þáttöku í aðgerðum gegn skattsvikum og sniðgöngu. Meðal annars segir að íslensk stjórnvöld hafi um árabil lagt áherslu á slíkt samstarf og að markmiðið sé að auka gagnsæi og styrkja skattaframkvæmd svo allir skili réttilega til samfélagsins.

Þá var Ísland eitt þeirra OECD-ríkja sem skrifaði undir upplýsingaskiptasamstarf í Berlín árið 2014, en samkvæmt samkomulaginu munu aðildarríki að því skiptast á upplýsingum fjármunalegar eignir og tekjur af þeim í hverju ríki fyrir sig.

Ísland hefur þá einnig innleitt svokallaða CFC-löggjöf. CFC stendur fyrir Controlled foreign corporation og vísar til aflandsfélaga í eigu Íslendinga. Þær ná til félaga, sjóða og stofnana sem eru staðsett á lágskattasvæðum en í eigu íslensks eiganda - hvort sem er einstaklings eða félags.

Samkvæmt CFC-löggjöfinni verður eigandi að greiða tilhlýðandi skatt af hagnaði aflandsfélagsins og auk þess verður eigandinn að skila upplýsingum um eignarhaldið til ríkisskattstjóra með árlegu millibili. Reglurnar eiga þó ekki við um ESA- eða EFTA-ríki, Færeyjar, eða þau ríki sem Ísland hefur komið á tvísköttunarsamning við.

Líklegt er að ráðuneytið hafi birt samantektina vegna þess að á síðustu dögum hafa aflandsfélög verið sérlega mikið til umræðu - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafa öll verið bendluð við slík félög gegnum Panama-skjölin svokölluðu.