Í áríðandi fréttatilkynningu sem Errea sendi þjóðinni í dag segir:

„Landsliðstreyjurnar eru ekki komnar til landsins og ekki er von á þeim í dag!“

Fyrir þremur dögum gaf Errea út að ný sending kæmi til landsins í dag, og svo önnur í næstu viku. Nú segja þeir að þó unnið sé hörðum höndum að því að koma sendingunni til landsins er það orðið ljóst að það verði ekki í dag.

Segjast þeir bíða eftir svörum frá flutningsaðila sínum með hvað hafi farið úrskeiðis í ferlinu og hvenær þeir geti afhent sendinguna. Jafnframt segir í fréttatilkynningunni:

„Spennustig þjóðarinnar er mjög hátt þessa dagana og erum við í áfalli yfir því að staðan sé svona. Viljum við því biðja fólk að halda ró sinni og sýna þessu skilning.“