Magnús Garðarsson, einn eigenda verksmiðju United Silicon, segir að ástandið á kísilmálm-markaði sé nokkuð sérstakt. Ljóst sé að fyrirtækið sé að koma inn á markaðinn á erfiðum tíma því verð hafi lækkað nokkuð undanfarin misseri.

„Við erum alveg að klára þetta," segir Magnús. „Upphaflega ætluðum við að ljúka byggingu verksmiðjunnar 30. maí en það hefur tafist. Nú gerum við ráð fyrir að klára þetta 30. júní og hefja framleiðslu 15. júlí. Fyrstu tvær vikurnar fara í að prófa búnaðinn. Þá koma hingað átján norskir sérfræðingar sem munu þjálfa okkar starfsfólk. Í lok júlí ætti verksmiðjan vera kominn á fullt.

Núna er verið að loka byggingunni og klæða að utan. Einni er verið að koma ýmsum búnaði fyrir inni í húsinu en það hefur reyndar verið í gangi síðustu níu mánuði. Þetta er ekki einfalt verk."

Magnús segir að markaðurinn hafi verið í smá lægð að því leyti að verð á kísilmálmi hafi lækkaði töluvert á seinni hluta síðasta árs og aftur í vetur.

„Verðið er rétt byrjað að hækka aftur núna. Staðan á þessum markaði er nokkuð sérstök. Eftirspurnin hefur aldrei verið meiri en á sama tíma hefur framleiðsla aukist mjög mikið.

Það er alveg ljóst að við erum að koma inn á þennan markað á erfiðum tíma og munum ekki hagnast mikið fyrstu árin. Aftur á móti höfum við mikla trú á verkefninu til lengri tíma enda gera spár ráð fyrir að eftirspurnin muni aukast ár frá ári. "

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .