Innlimun norska fyrirtækisins Mørenot inn í samstæðu Hampiðjunnar – sem festi kaup á því fyrrnefnda á dögunum – er enn á frumstigi, enda nokkurra ára ferli að ná henni fram að fullu. Stjórnendur Hampiðjunnar sjá fyrir sér margþætt og veruleg samlegðaráhrif af yfirtökunni í fyllingu tímans.

„Mørenot er á svæðum sem við höfum ekki verið mikið á, og öfugt, sem veitir báðum einingum aðgang að nýjum mörkuðum,“ útskýrir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, og tekur dæmi af norska markaðnum, en bæði seldu

„Við höfum ekki selt mikið af flottrollum þangað og Mørenot hefur ekki haft nógu góða hönnun á því sviði fyrir þann markað, en nú erum við á fullu við að vinna með þeim að hanna, framleiða og selja þau á þeim markaði.“

Lengi mætti áfram halda í umfjöllun um hagræðingartækifærin sem í samrunanum felast fyrir reksturinn sjálfan, en þau einskorðast þó ekki við hann. Eftir dalandi afkomu síðastliðin ár er skuldastaða Mørenot orðin þung, og að óbreyttu stefnir í verulega hækkun vaxta af þeim skuldum þegar föst vaxtakjör stærstu skuldarinnar renna út næsta haust.

„Félagið er orðið mjög skuldsett og hefur verið að vinna með sínum viðskiptabanka í tengslum við fjármögnun félagsins, t.d. með sölu eigna og viðskiptakrafna.“

Því stendur nú til að nota fjármagn úr yfirstandandi hlutafjárútboði til að greiða upp skuldir Mørenot. „Um 60% af hlutafjáraukningunni verður nýtt í þeim tilgangi. Þannig munum við ná fram mun hagstæðari fjármagnsskipan í félaginu. Eftir hlutafjáraukninguna mun eigninfjárhlutfall Hampiðjusamstæðunnar verða svipað og það var fyrir yfirtökuna,“ segir Hjörtur.

Nánar er rætt við Hjört um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á föstudagsmorgun.