Eyjatours er nýstofnað ferðaþjónustufyrirtæki í Vestmannaeyjum. Stofnendur félagsins eru hjónin Íris Sif Hermannsdóttir og Einar Birgir Baldursson en saman ætla þau að kynna allt sem Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða fyrir erlenda sem og innlenda ferðamenn.

„Það er eitt fyrirtæki hér í Eyjum sem sér um rútuferðir en við einblínum á að bjóða upp á afmarkaðri einkaferðir um eyjuna í smærri bílum. Við viljum taka að okkur smærri hópa sem vilja kannski ekki fara í rútuferðir,“ segir Íris.

Starfsemi fyrirtækisins hófst síðasta sumar en Íris segir að þau hafi aðeins náð að starfa tvo mánuði af sumrinu. Nú stefnir hins vegar í fulla starfsemi allt sumarið.

Spurð að því hvaða ferðir séu vinsælastar af þeim sem eru á boðstólum segir Íris að sérstakar lundaferðir þeirra slái reglulega í gegn á meðal erlendra ferðamanna. „Við förum með fólki, sýnum þeim lundabyggðirnar og endum síðan á safni sem heitir Sæheimar þar sem fólk fær að skoða lifandi lunda. Þetta er alveg sérstaklega vinsælt,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .