Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins sagði á opnum fundi SA í Hörpu í morgun að ábyrgðarleysi íslenskra stjórnmálamanna muni nú geta hrint af stað hinu séríslenska höfrungahlaupi og hringrás verðbólgu, vaxtahækkana og óvissu.

„Það er sérstakur kapítuli að loforðastraumur stjórnmálaflokka þessa dagana getur falið í sér allt að 100 milljarða árleg aukin útgjöld án þess að hugað sé að fjármögnun þeirra,“ sagði Eyjólfur.

„Þær hugmyndir sem þó hafa verið settar fram um auknar tekjur eða skattahækkanir duga hvergi nærri til að fjármagna kosningaloforðin. Enn eina ferðina keppast stjórnmálaflokkar við að yfirbjóða hver annan á óábyrgan hátt með bólgnum kosningaloforðum.“

Eyjólfur Árni segir þetta meginástæðu vantrausts þjóðarinnar gagnvart stjórnmálamönnum. „Þetta lýsir grundvallarvanda íslenskra stjórnmála að stjórnmálamenn og flokkar komast upp með slíkt ábyrgðarleysi,“ segir Eyjólfur Árni.

„Vegna þessa er nú mikil hætta á að hin séríslenska, reglubundna hringrás í efnahagsmálum og höfrungahlaup á vinnumarkaði muni öðlast nýtt líf með aukinni verðbólgu, vaxtahækkunum og tilheyrandi óvissu.“