Þeir tölvupóstar Jóhannesar Stefánssonar sem ekki hafa birst áður, utan þeirra er snúa að persónulegum málum hans, verða birtir að því er Fréttablaðið hefur eftir heimildum innan Samherja.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær birti fyrirtækið að eftir yfirferð á tölvupóstum, sem Jóhannes hafði látið birta á WikiLeaks og fjallað var um í þætti Kveiks á RÚV vegna meintra mútugjafa Samherja, hefði hann haldið eftir meirihluta póstanna frá tímabilinu.

Nánar tiltekið hefði hann einungis birt um 18,5 þúsund, eða 42% af ríflega 44 þúsund tölvupóstum sem hefðu verið í pósthólfi hans á þeim tíma sem hann var stjórnandi Samherjafélaganna í Namibíu, það er á árabilinu 2014 til 2016. Jafnframt hefðu einungis nokkrir póstar ársins 2015 verið birtir.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Samherja segir það alvarlegt áhyggjuefni að það vanti heilt ár í tölvupóstana og aðeins 42% þeirra hafi verið birtur.

„Mér finnst það vekja upp spurningar og maður veltir því fyrir sér hvað sé í hinum tölvupóstunum, hvort það sé verið að teikna upp einhliða frásögn og birta eingöngu þau gögn sem styðja við þær ásakanir,“ segir Björgólfur sem segir koma til greina að birta alla póstana.

„Það kann alveg að vera. Ég hef ekki sjálfur litið á þessa tölvupósta en mér finnst það hljóta að koma til greina, ef það er eitthvað í þeim sem styður þá skoðun okkar að starfsemin hafi ekki verið eins og lýst hefur verið í þessum þáttum.“

Lögmannsstofan Wikborg Rein rannsakar nú málið fyrir Samherja fær tölvupóstana afhenta, og segir Björgólfur hægt að treysta því þegar niðurstaða þeirra verði birt séu þeir ekki að fara að leggja orðspor sitt að veði fyrir Samherja.