Reynt verður að hnýta fyrir alla lausa enda í samningi um leigu Huang Nubo á landi Grímsstaða á Fjöllum og koma í veg fyrir að hægt verði að misnota hann, svo sem með sölu eða yfirtöku annars aðila, að sögn Halldórs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Zhongkun á Íslandi, félags Nubo hér á landi.

Gestir á fyrirlestri í Háskóla Íslands þar sem Halldór fór yfir fjárfestingar Nubo gagnrýndu viðskipti hans í öðrum löndum, s.s. í Bandaríkjunum. Fram kom að hann hafi í eigin nafni keypt fjögurra ferkílómetra jörð í Tennesse og veðsett það að nær öllu leyti innan árs frá kaupum. Lítið virðist hafa gerst þar síðan þá. Veðsetning kínverskra fjárfesta í kjölfar jarðakaupa var jafnframt gagnrýnd harklega á fundinum og voru uppi raddir um að svipuðu máli muni gegna um fjárfestingu Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum.

Halldór benti á að Zhongkun hafa hætt við áform sín í Tennesse en önnur verkefni séu enn í gangi vestanhafs, svo sem fasteignaviðskipti og rekstur verslunarmiðstöðvar í Los Angeles.

Hvað veðsetningu eigna snerti þá lagði hann ríka áherslu á að með samningum sé stefnt að því að koma í veg fyrir hvers kyns viðskipti pg misnotkun með Grímsstaði á Fjöllum, s.s. eigendaskipti í kjölfar veðsetningar.