„Við erum komin á enda í þessu vaxtahækkunarferli í bili,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri þegar hann kynnti niðurstöðu peningastefnunefndar um 0,25 prósentur hækkun stýrivaxta. Már bætti því við að það yrði að minnsta kosti hlé á vaxtahækkunum og sjá þyrfti hvernig mál þróuðust á nýju ári. Miðað við verðbólguspá bankans, sem gerir ráð fyrir hjöðnun verðbólgunnar á næsta ári, væri komið á endastöð.

Mikilvægir kjarasamningar

„Það er margt sem bendir til að núverandi nafnvextir Seðlabankans nægi til að ná markmiðum bankans. Það er meðal annars háð því að endurskoðun kjarasamninga á nýju ári samrýmist hjöðnun verðbólgunnar að markmiðinu," sagði Már.

Már sagði í þessu samhengi að frá því að vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst í ágúst 2011 hafi nafnvextir Seðlabankans hækkað um 1,75 prósentur, sem sé töluvert. Raunvextir hefðu hækkað á sama tíma um 2 prósentur. Þessi niðurstaða væri í raun meiri tíðindi en hækkun stýrivaxta nú.