Gagnaver hafa vaxið hratt að umfangi í heiminum á undanförnum árum þrátt fyrir efnahagskreppuna. Það vakti athygli þegar Google tilkynnti um risagagnaver sitt í Finnlandi 2009 og Facebook hóf starfsemi í Lulea á fjarlægum stað í norðurhluta Svíþjóðar.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að Landsvirkjun hafi fylgst vel með þessum verkefnum og unnið í að koma Íslandi á framfæri á þessum vettvangi. „Við höfum þurft að læra margt um gagnaversmarkaðinn. Aðilarnir vinna hratt og mjög fagmannlega, þeir mæta með spurningalista um allt frá veðurfari, jarðskjálftavirkni og flugsamgöngum yfir í stöðu menntakerfisins hérlendis og glæpatíðni. Þeir þurfa að geta sent sérfræðinga sína til starfa á staðnum til lengri eða skemmri tíma og verða að vera vissir um að fjölskyldur þeirra geti flust með þeim. Í þessu ferli megum við aldrei segja rangt frá eða tafsa á að gefa upplýsingar. Þá missum við traust sem er lykilatriði í viðskiptum á þessu sviði.“

Vinna Landsvirkjunar hefur nú skilað árangri því fyrirtækið er komið í valferli fyrir tvö risagagnaver. „Þetta er mikill áfangi fyrir okkur en í raun bara upphafið því nú tekur við enn meiri vinna við að skoða ítarlega hverjar þarfir þessara aðila eru og hvernig við getum uppfyllt þær. Við vitum að við erum í samkeppni við önnur lönd og það heldur öllum á tánum. Samkeppnin er hörð enda eftir miklu að slægjast.“

Björgvin segist ekki geta gefið frekari upplýsingar um verkefnin að svo komnu máli. „Við erum bundin trúnaði við aðilana enda hafa þeir engan áhuga á að samkeppnisaðilar þeirra viti hvað þeir eru að gera. Við munum auðvitað reyna okkar besta en við höfum á sama tíma markað okkur stefnu innanhúss um hversu langt við erum tilbúin að ganga í samningaviðræðum. Ef þessi valferli ganga ekki upp nú þá er ég samt viss um að það koma fleiri í framtíðinni.“

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .