*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 7. janúar 2021 10:15

Komin með 45% í Skeljungi

Strengur færist nær meirihluta í Skeljungi og á nú 45% eignarhlut í félaginu.

Ritstjórn
Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Skeljungs og Strengs og Ingibjörg Pálmadóttir, aðaleigandi 365.
Eggert Jóhannesson

Fjárfestingafélagið Strengur er komið með 45,22% eignarhlut í Skeljungi eftir að hafa bætt við sig ríflega 90 milljónum hluta í Skeljungi, sem nú eru metin á yfir 900 milljónir króna. Strengur á nú 875,5 milljónir hluta í Skeljungi sem metin eru á um 9 milljarða króna.

Strengur gerði yfirtökutilboð í Skeljung sem lauk á þriðjudag en einungis 2,56% hluthafa tóku tilboðinu. Gengi bréfa Skeljungs stendur nú í 10,05 krónum á hlut en yfirtökutilboðið var á verðinu 8,315 krónur á hlut. 

Strengshópurinn vill ná meirihluta í Skeljungi og hefur boðað talsverðar breytingar á starfsemi félagsins. Stefnt er að því að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands og selja stóran hluta af eignum Skeljungs og greiða hluthöfum með arði eða kaupa eigin bréfa. Lífeyrissjóðir sem eru meðal stærstu hluthafa Skeljungs höfnuðu tilboði Strengs og hafa lagst gegn hugmyndum um að félagið verði afskráð úr Kauphöllinni.

Að Streng standa þrjú félög, 365 hf., RES 9 og RPF. 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur sem er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Skeljungs og Stregns. RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og breska fjárfestingafélagsins No. 9 Investments Limited. RPF er í eigu Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar eigenda fasteignasölunnar RE/MAX.

Stikkorð: 365 Skeljungur Strengur yfirtökutilboð RES II RES 9