Arnar S. Gunnarsson, öryggissérfræðingur hjá Nýherja, hefur hlotið tvær öryggisvottanir tölvukerfa. Annars vegar er að ræða vottunina Computer Hacking Forensics (CHFI) á vegum Hacker University og hins vegar Certified Ethical Hacker (CEH) á vegum Promennt. Báðar gráðurnar eru vottaðar í gegnum fyrirtækið EC Council.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja, að námskeiðið Certified Ethical Hacker fór fram í tengslum við Hacker Halted ráðstefnunna hér á landi og er vottun í innbrotum í tölvukerfi. „Við fórum yfir hvernig hægt er að átta sig á mögulegum öryggisgöllum í tölvukerfum og hvernig á að verjast árásum,“ er haft eftir Arnari.

Safnar sönnunargögnum

Arnar bendir á að Computer-Hacking-Forensics byggist á nokkurs konar vettvangsrannsókn í tengslum við tölvuinnbrot; söfnun sönnunargagna. Þá verði að átta sig á atburðarásinni, skoða verksummerki eftir tölvuþrjóta og tryggja að gögn gegn þeim séu nothæf fyrir rannsókn lögregluyfirvalda og síðar fyrir dómsstólum.

„Við fórum t.d. í gegnum rannsóknir gagna á hörðum diskum, sem er búið að marg strauja og markmiðið var að finna vísbendingar og verksummerki eftir þá,“ segir Arnar.