Ástráður Haraldsson hrl. hefur enn á ný komist í kastljós fjölmiðla, nú síðast eftir að hann og Ásbjörn Björnsson, lögg. endurskoðandi, skiluðu greinargerð um hæfi Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME).

Ástráður hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður frá 1992 og starfar nú á lögmannsstofunni Mandat þar sem hann er jafnframt stjórnarformaður. Þá hefur Ástráður jafnframt starfað sem dósent við Háskólann á Bifröst frá 2002 en hann situr jafnframt í stjórn skólans.

Pólitísk tengsl Ástráðs hafa verið flestum kunn en hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græna og Alþýðubandalagið sáluga. Hann var m.a. skipaður í stjórn 0rkuveitu Reykjavíkur fyrir hönd VG þegar tjarnarkvartettinn svokallaði tók við völdum í borginni haustið 2007. Svandís Svavarsdóttir, nú umhverfisráðherra, var þá oddviti VG í borginni en hún er fyrrv. eiginkona Ástráðs og saman eiga þau tvö börn, fædd 1984 og 1986.

Ástráður var fyrirferðamikill í stúdentapólitíkinni á sínum tíma og sat m.a. í Háskólaráði HÍ á árunum 1986-88 fyrir hönd Félags vinstrimanna. Á meðal vina og kunningja gekk hann iðulega undir nafninu Stráði. Á sama tíma var hann þekktur meðal Vökuliða sem Stráði kommi en Röskvuliðar áttu það til að kalla hann Stráða ríka, með vísan til þess að hann væri komminn sem ætlaði sér að verða ríkur. Viðskiptablaðið hefur heimilisbókhald Ástráðs ekki undir höndum en leiða má líkur að því að fjárhagur hans sé nokkuð traustur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.