Félag í eigu Davíðs Berndsen Bjarkasonar og viðskiptafélaga hans hefur hannað, þróað, framleitt og komið á markað svokölluðum Filt pappír til að mæta þörfum íslenskra munntóbaksnotenda, eins og greint hefur verið frá . „Ég sá bara að það voru allir að taka pappír í vörina, sem var að rifna uppi í munninum á fólki. Það var sóðaskapur af þessu,“ segir Davíð í samtali við Viðskiptablaðið.

Davíð segir að viðbrögðin hér heima hafi orðið til þess að félagið sá ástæðu til að líta til erlendra markaða. „Við erum komnir með einkaleyfi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og á Íslandi líka. Við erum að skoða þau mál í þaula, þá helst í Noregi, þar sem við höfum ágætis tengingar þangað. Við erum að nota þennan markað hérna heima til að sanna gildi vörunnar,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að fjárfestar hafi komið að máli við sig um að aðstoða við að koma vörunni á erlenda markaði, en félagið hafi enn ekki tekið ákvörðun um hvort eða hvernig það verði gert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .